Innlent

Kosningahegðun kvenna skiptir líklega sköpum í kosningunum

„Mér finnst það algjörlega óviðunandi að tvær konur séu formenn í nefndum á vegum Alþingis," segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra um það að konur stýri nefndarstarfi í tveimur af tólf fastanefndum þingsins. Ítarlega er fjallað um stöðu og áhrif kvenna í íslenskum stjórnmálum í annarri kosningagreininni af átta í Fréttablaðinu í dag.

Jafnræði milli kynja er mest á framboðslistum Framsóknarflokksins. Einungis fjórar konur af átján eru í þremur efstu sætunum á listum Sjálfstæðisflokksins en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er eina konan sem leiðir lista í flokknum, í Suðvesturkjördæmi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, leiðir lista flokksins í Reykjavík suður en hún er eina konan sem leiðir lista hjá Samfylkingunni.

Jafnræði er minnst hjá Frjálslynda flokknum, sé mið tekið af frambjóðendum í efstu sex sætunum, en þrettán af 36 frambjóðendum flokksins í þeim sætum eru konur.

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, segir útlit fyrir að breytt viðhorf kvenna frá síðustu kosningum geti ráðið úrslitum í vor. Í síðustu kosningum kusu 48 prósent kvenna Samfylkinguna og Vinstri græn en sé mið tekið af könnunum gæti sú tala orðið næstum tíu prósentustigum hærri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×