Tónlist

Í aðra tónleikaferð

Strákasveitin Take That ætlar í aðra tónleikaferð um Bretland í lok ársins.
Strákasveitin Take That ætlar í aðra tónleikaferð um Bretland í lok ársins.

Strákasveitin Take That ætlar í lok ársins í sína aðra tónleikaferð um Bretland síðan hún kom saman á nýjan leik á síðasta ári. Ferðin mun heita The Beautiful World Tour og munu þeir félagar meðal annars spila í London, Glasgow og í Manchester.

Smáskífulag Take That, Patience, og plata þeirra Beautiful World nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta ári og fóru beint á toppinn í Bretlandi. Skömmu áður hafði sveitin farið í vel heppnaða tónleikaferð um Bretland.

„Við getum ekki hugsað okkur betri leið til að ljúka árinu en að gefa aðdáendum okkar eitthvað fyrir aurinn sinn,“ sagði Gary Barlow úr Take That. „Við erum allir ótrúlega þakklátir fyrir stuðninginn sem við höfum fengið á undanförnum átján mánuðum.“

Hljómsveitin spilaði fyrir rúmlega hálfa milljón áhorfenda á síðustu tónleikaferð sinni um Bretland. Seldist platan Beautiful World í rúmlega einni milljón eintaka í Bretlandi sína fyrstu mánuði frá útgáfu. Lagið Patience hlaut jafnframt Brit-verðlaun sem besta smáskífan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×