Innlent

Vilja vita hvaða lögreglumenn áttu í hlut

Lögreglan reynir að hindra að upplýsingar um lögreglumenn, sem handtóku mann, sem lést í vörslu þeirra, komist til ofbeldismanna sem hafa hótað lífláti.

Líflátshótanir hafa borist lögreglu, eftir að hjarta stöðvaðist í manni í þeirra vörslu í lok nóvember, en maðurinn lést tæpri viku síðar. Hótanirnar hafa komið frá þekktum ofbeldismönnum og handrukkurum. Lögreglan tekur hótanirnar alvarlega og hefur embættið í Reykjavík gripið til aðgerða til þess að auka öryggi sinna manna. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögreglan fengið upplýsingar um að ofbeldismennirnir séu að reyna að komast að því hvaða lögreglumenn voru í lögreglubílnum þegar hjartað í manninum stöðvaðist. En skömmu áður hafði hann verið handtekinn á Hótel Sögu þar sem hann var með ólæti og kastaði til húsgögnum. Vegna þessa reynir lögreglan hvað hún getur til að hindra að það spyrjist út hvaða lögreglumenn áttu í hlut.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær voru lögreglumenn á vakt í miðbænum, um síðustu helgi, fleiri en vanalega vegna hótananna auk þess sem þeir klæddust öryggisvestum til að verjast árásum eins og hnífsstungum og höfðu með sér stórar kylfur sér til varnar. Aðrar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar en lögreglan vill ekki gefa upp hverjar þær eru svo þeir, sem standa að hótununum, fái þær upplýsingarnar ekki í hendur.

Niðurstaða krufnigar liggur ekki fyrir en hún mun varpa ljósi á hvað olli dauða mannsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×