Innlent

Framúrakstur talinn orsök banaslyss

MYND/Anton Brink

Nær fullvíst þykir að framúrakstur hafi verið orsök banaslyssins sem varð á Vesturlandsvegi undir kvöld í gær. Framúrakstur var einnig orsök banaslyssins á Suðurlandsvegi fyrir rúmri viku, þar sem tveir létust.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa ásamt tæknideild lögreglunnar í Reykjavík rannsaka tildrög slyssins og óskar eftir fleiri vitnum. Ökumaður á þrítugsaldri beið bana í slysinu.

Bílarnir komu úr gagnstæðum áttum og skullu saman af miklu afli. Mjög hvasst var á vettvangi, slydda og afleitt skyggni. Björgunarmenn þurftu að beita klippum til að ná ökumönnunum út úr bílflökunum en farþegar, sem voru í öðrum bílnum, sluppu nær ómeiddir. Annar ökumannanna var úrskurðaður látinn við komuna á slysadeild Landspítalans, en hinn mun ekki vera lífshættulega slasaður.

29 hafa látist í umferðarslysum það sem af er árinu og eru það tíu fleiri en allt árið í fyrra. Ef litið er tíu ár aftur í tímann er meðaltalið um það bil 24 banaslys á ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×