Innlent

Guðni tekur undir orð Jóns

MYND/GVA

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, tekur undir orð Jóns Sigurðssonar, formanns flokksins, um að það hafi verið mistök að styðja innrásina í Írak fyrir rúmum þremur árum. Þá segir hann nýjan stjórnunarstíl hafa fylgt nýjum forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna, þeim Geir H. Haarde og Jóni Sigurðssyni.

Guðni var gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag og þar var meðal annars rætt um yfirlýsingar Jóns Sigurðssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, um síðustu helgi. Þar gangrýndi Jón meðal annars að ekki hefði verið haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis þegar ákvörðunin um stuðninginn var tekin.

„Þarna er lýðræðissinninn Jón Sigurðsson í rauninni að segja hvernig hann mundi starfa. Hann telur mjög mikilvægt hafa samstarf við þingið og í öllum svona stórum málum sé mjög mikilvægt að hafa lýðræðislegt samstarf í flokkunum, ríkisstjórninni og þinginu," sagði Guðni.

Guðni vildi ekkert segja um það hvort þetta væri ákveðinn dómur yfir stjórnunarstíl Halldórs Ásgrímssonar. „Það liggur auðvitað fyrir að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson tóku þessa ákvörðun og hún hefur verið margrakin og þarf í sjálfu sér ekki að fara meira yfir það en Íraksstríðið hefur orðið mörgum þjóðum þungbærara en þær ætluðu í upphafi og heldur áfram með sínum hörmungum."

Guðni segir það orðum ýkt að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafi tekið allar ákvarðanir í ríkisstjórninni sem aðrir hafi svo samþykkt eftir á. „En það er engin spurning að það er betra fyrir þá sem í þessu eru að hafa meira samráð. Ég sé til dæmis að Geir Haarde og Jón Sigurðsson nú, að þeir eru menn samstarfs," sagði Guðni og bætti við að sér hugnaðist vel stíll nýs formanns Framsóknarflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×