Innlent

Efnahagsbrotadeild fær frest fram á þriðjudag til að skila greinargerð

Jón H. B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, hefur fengið frest til 5. desember, eða fram á næsta þriðjudag til að vinna greinargerð vegna kæru fimm Baugsmanna gegn yfirmönnum deildarinnar.

Kæran á hendur efnahagsbrotadeild var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þar fara fimmmenniningarnir fram á það að rannsókn deildarinnar á meintum skattalagabrotum þeirra verði dæmd ólögmæt og til vara að deildin verði úrskurðuð vanhæf til að rannsaka málið.

Fimmmenningarnir sem um ræðir eru Jón Ásgeir Jóhannesson, systir hans Kristín Jóhannesdóttir, Jóhannes Jónsson, faðir þeirra, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, og Stefán Hilmarsson endurskoðandi og neita þau að svara spurningum lögreglu fyrr en úrskurður liggur fyrir í málinu. Fimmmenningarnir halda því fram að yfirmenn efnahagsbrotadeildar hafi gert sig og deildina vanhæfa með yfirlýsingum sínum í fjölmiðlum um þá.

Málflutningur verður í málinu þann 6. desmber í héraðsdómi, það er daginn eftir að Jón H. B. Snorrason hefur skilað inn greinargerð sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×