Innlent

Gildistöku 300 þúsund króna frítekjumarks flýtt

MYND/VG

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tillögu Árna Mathiesens, fjármálaráðherra, og Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að leggja til að gildistöku 300 þúsund króna frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði flýtt um þrjú ár.

Þetta þýðir að ákvæði í frumvarpi um almannatryggingar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, og gert er ráð fyrir að tækju gildi á árinu 2009 og 2010 taka að fullu gildi um næstu áramót.

Ákvörðun um að flýta gildistökunni og stíga þetta skref að fullu um áramótin, og ekki í tvennu lagi, endurspeglar þann vilja ráðherranna og ríkisstjórnarinnar að koma til móts við eindregnar óskir talsmanna fulltrúa aldraðra og aldraðra sjálfra, segir í sameiginlegri tilkynningu ráðherranna.

Þar segir einnig, að 300 þúsund króna frítekjumark sé nýmæli sem dragi úr áhrifum tekna við útreikning tekjutryggingar ellilífeyrisþega. Með frítekjumarkinu er ellilífeyrisþegum gert kleift að stunda atvinnu og fá 300.000 krónur á ári í laun, án þess að þessi hluti teknanna skerði tekjutryggingu sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir. Frítekjumarkið er þannig enn ein aðgerðin til að draga úr áhrifum tekna á bætur, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

Kjarabótin vegna afnáms þessa hluta tekjutenginga gagnast þeim mest í hópi ellilífeyrisþega sem hafa lægri og meðaltekjur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×