Sport

De la Hoya og Mayweather berjast í maí

NordicPhotos/GettyImages

Oscar de la Hoya og Floyd Mayweather munu mætast í hringnum þann 5. maí. Þetta staðfesti De la Hoya í samtali við ESPN sjónvarpsstöðina í dag, en bardaga þeirra hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í mörg ár. Bardaginn verður líklega síðasti bardagi þeirra beggja á ferlinum og líklegt er að báðir fái metupphæð fyrir bardagann, sem fram fer í Los Angeles eða Las Vegas.

De la Hoya hefur unnið 10 titla á ferlinum. Hann varð Ólympíumeistari árið 1992, en hætti að keppa fyrir nokkru og fór að einbeita sér að því að skipuleggja bardaga. Hann keppti síðast í maí þar sem hann vann WBC beltið með frábærri frammistöðu gegn Ricardo Miyorga.

Mayweather er heldur enginn aukvisi í hringnum og er taplaus í 37 bardögum. Hann sigraði síðast Carlos Baldomir og sagði að það yrði líklega sinn næst síðasti bardagi. Það vekur athygli að þjálfari De la Hoya, er faðir Floyd Mayweather og hefur De la Hoya sagt að ef sá gamli treysti sér ekki til að þjálfa sig gegn syni sínum - muni hann sýna því fullkominn skilning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×