Sport

Vill verða alvöru heimsmeistari

NordicPhotos/GettyImages

Úkraínumaðurinn Wladimir Klitschko segir að enn sé nokkuð í það að hann geti kallað sig alvöru heimsmeistara í þungavigt, en hann mætir Bandaríkjamanninum Calvin Brock í beinni útsendingu á Sýn annað kvöld.

Bardagi þeirra verður aðalviðureign kvöldsins í Madison Square Garden annað kvöld, en auk þess verður goðsögnin Muhammad Ali á svæðinu til að sjá dóttur sina Laila Ali berjast í einum af fyrri bardögum kvöldsins.

"Ég lít ekki á mig sem alvöru meistara á borð við Joe Luis, Muhammad Ali og Lennox Lewis enn sem komið er og þungavigtina vantar enn að eignast slíkan mann. Ég er alltaf tilbúinn að berjast við alla handhafa annara titla en þeir vilja ekki mæta mér, svo ég verð að láta mér Calvin Brock að góðu verða," sagði IBF meistarinn Klitschko, sem hefur unnið 46 sigra í 49 bardögum.

Brock er 31 árs gamall og taplaus í 29 viðureignum, en þetta er í fyrsta sinn sem hann fær stóran titilbardaga á ferlinum. Bardaginn annað kvöld verður að sjálfssögðu sýndur beint á Sýn og hefst klukkan 2 eftir miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×