Erlent

Olmert segir að mistök hafi verið gerð

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að um "tæknileg mistök" hafi verið að ræða þegar stórskotaliðsárás var gerð á bæinn Beit Hanoun á Gazaströndinni sem kostaði átján lífið, þar af tíu börn. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræddi árásina á fundi sínum í dag.

Útfarir fórnarlamba árásanna fóru fram í dag en þau voru ölll úr sömu fjölskyldunni. Þúsundir íbúa Beit Hanoun þustu út á götur bæjarins í morgun til að minnast þeirra og skein sorg og reiði úr hverjum andlitsdrætti. Yfir höfðum fólksins sveimuðu ómannaðar ísraelskar könnunarflugvélar. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir vegna þessarar mannskæðustu árásar Ísraela í háa herrans tíð. Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels ræddi í dag um verknaðinn í fyrsta sinn við fjölmiðla í dag. Hann sagði að tæknileg mistök hefðu verið gerð og hann harmaði mjög að saklaust fólk hefði látið lífið. Slíkt væri ekki stefna Ísraelsstjórnar.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í dag um árásina í Beit Hanoun. Sendiherra Palestínumanna hjá ráðinu óskaði eftir tafarlausum fundi og því að öryggisráðið fordæmdi árásina.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×