Erlent

Sjóorrusta við strendur Sri Lanka

Tuttugu og þrem hraðskreiðum fallbyssubátum var sökkt í mikilli sjóorrustu undan ströndum Sri Lanka, í dag, að sögn stjórnvalda.

Talsmaður hersins sagði að Tamíl tígrar hefðu reynt að sökkva farþegaferju með 300 manns innanborðs, og sjóherinn hefði skorist í leikinn. Ferjunni hafi verið bjargað, en einum af fallbyssubátum sjóhersins sökkt.

Þá hafi liðsauki verið sendur á vettvang, bæði skip og flugvélar og hafi tuttugu og tveim bátum Tamíl tígra verið sökkt.

Tígrarnir sögðu fyrr í dag að þeir hefðu sökkt einum af fallbyssubátum stjórnarhersins og annar stæði í björtu báli. Þeir sögðu ekkert um ferju, en sökuðu stjórnarherinn um að hafa átt upptök að átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×