Innlent

Álfheiður sækist eftir 1. - 2. sæti

Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gefur kost á sér til þingsetu fyrir flokkinn. Álfheiður sækist eftir 1. til 2. sæti í sameiginlegu prófkjöri VG sem fram fer 2. desember næstkomandi.

Í tilkynningu segir Álfheiður að framtíðarsýn Vinstri-grænna sé um samfélag sem virði manngildi og jafnrétti allra einstaklinga, samfélag þar sem menn lifi í sátt við náttúruna og beri virðingu fyrir henni.

"Núverandi stjórnarstefna hefur hins vegar leitt til vaxandi misskiptingar, niðurskurðar á velferðarkerfinu og hömlulausra stóriðjuframkvæmda sem valda ómældum náttúruspjöllum. Ég hef þá sannfæringu að það þurfi öfluga sveit Vinstri-grænna á alþingi til að snúa þessari þróun við; vernda náttúru landsins, stöðva einkavæðinguna, styrkja lýðræði og mannréttindi í landinu og tryggja jöfnuð og lífskjör þeirra sem ríkisstjórnin hefur skilið eftir í fátæktargildru vegna aldurs eða vanheilsu. Þetta eru þau mál sem ég hef lagt áherslu á í mínum pólitísku störfum og vil helga krafta mína á næsta kjörtímabili í þingflokki VG og nýrri ríkisstjórn," segir Álfheiður Ingadóttir í tilkynningu.

Álfheiður Ingadóttir skipaði 2. sæti á lista VG í Reykjavík suður í kosningunum 2003 og hefur tvívegis tekið sæti á þingi á yfirstandandi kjörtímabili. Þar vakti hún m.a. máls á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og gróða bankanna sem og kaupréttarsamningum bankastjóra sem mikil umræða varð um í samfélaginu.

Álfheiður hefur unnið með borgarmálahópi VG í Reykjavík undanfarin ár. Hún átti sæti í nefnd um mótun Orkustefnu Reykjavíkurborgar 2004-2005 og hefur setið í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúi borgarinnar frá vori 2003. Þá átti hún sæti í hafnarstjórn (stjórn Faxaflóahafna) um tíma 2005.

Álfheiður er líffræðingur að mennt og hefur starfað s.l. 10 ár sem útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands í Reykjavík og ritstjóri Náttúrufræðingsins. Áður starfaði hún við blaðamennsku og kennslu og að borgarmálum í Reykjavík; m.a. í jafnréttisráði og stjórn Sorpu bs. í fjögur ár, í umhverfisráði í átta ár og formaður þess um tíma. Hún var ein af stofnendum Kvennaathvarfsins og starfaði með Samtökum um kvennaathvarf árum saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×