Erlent

Hershöfðinginn stendur við yfirlýsingar sínar

Nýr yfirmaður breska heraflans, Sir Richard Dannatt, segist standa við yfirlýsingar sínar um að réttast væri að Bretar kölluðu fljótlega hermenn sína heim frá Írak. Yfirlýsing hans er á skjön við stefnu breskra stjórnvalda og hefur Dannatt verið kallaður á fund varnarmálaráðherra Breta.

Í blaðaviðtali sem birtist í Daily Mail í dag segir Dannatt veru breskra hermanna í Írak þar auka á óstöðugleika í landinu. Dannatt bætir því við að sér virðist sem áætlanagerð eftir vel heppnaða innrás í Írak árið 2003 hafi frekar byggt á óskhyggju en nokkru öðru. Múslimar í Írak hafi ekki boðið fjölþjóðlegu herliði inn í landið eða fagnað því.

Þessi yfirlýsing Dannatt er algjörlega á skjön við stefnu breskra stjórnvalda og vekur töluverða undrun. Breskir stjórnmálaskýrendur segja hana grafa undan Tony Blair, forsætisráðherra, sem hefur stutt dyggilega við bakið á Bandaríkjamönnum í Íraksstríðinu og hefur Dannatt verið kallaður á teppið hjá varnarmálaráðherra Bretlands í dag, vegna málsins.

Sjálfur segir Dannatt yfirlýsingar sínar ekki ganga gegn stefnu forsætisráðherrans. Dannett segir að hann standi við orð sín. Bretar standi áfram við hlið Bandaríkjamanna en hefja eigi flutning á herafla Breta burt frá Írak á næsta ári.

Íbúar í Basra sögðu í morgun að þeir styddu margir hverjir ummæli Danntte. En borgin er í suðurhluta Íraks og hafa átök í borginni verið mikil frá innrásinni í Írak.

Misvísandi yfirlýsingar yfirmanna hjá Bandaríkjaher síðustu daga vekja líka athygli. Peter Pace, hershöfðingi og yfirmaður bandaríska heraflans, viðurkenndi þannig í gær, að Bandaríkjamenn væru að endurskoða hernaðaráætlun sína í Írak, þar á meðal þann hornstein hennar, að Bandaríkjaher gæti ekki yfirgefið Írak fyrr en Íraksher væri fær um að taka við. Daginn áður hafði æðsti yfirmaður landhers Bandaríkjanna sagt að heraflinn í Írak yrði óbreyttur fram til 2010.

Lykilmenn í flokki Repúblikana hafa gagnrýnt Íraksstefnu Bush Bandaríkjaforseta að undanförnu. Bush átti fund með George Casey, yfirmanni Bandaríkjahers í Írak í Hvíta húsinu í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×