Körfubolti

KR burstaði Grindavík

Það verða Njarðvíkingar, Keflvíkingar, Skallagrímsmenn og KR-ingar sem spila í undanúrslitum Powerade bikarsins í körfubolta eftir að þrjú síðastnefndu liðin tryggðu sér nokkuð örugga sigra í viðureignum sínum í átta liða úrslitunum í gær, sunnudag.

Keflvíkingar unnu auðveldan 100-62 sigur á Tindastól á heimavelli sínum í Keflavík. Thomas Soltau skoraði 21 stig og hirti 10 fráköst fyrir Keflvíkinga og Magnús Gunnarsson skoraði 16 stig og hirti 9 fráköst. Lamar Karim skoraði 22 stig fyrir Tindastól og Steve Parillon bætti við 17 stigum og 8 fráköstum.

KR-ingar burstuðu Grindvíkinga á heimavelli sínum 108-87. Tyson Patterson var stigahæstur í jöfnu liði KR með 19 stig, gaf 15 stoðsendingar og stal 6 boltum, Peter Heizer skoraði 15 stig, Jeremiah Sola skoraði 14 stig og hirti 9 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði einnig 14 stig og gaf 6 stoðsendingar og Fannar Ólafsson skoraði 12 stig og hirti 15 fráköst. Hjá Grindvíkingum var Steven Thomas stigahæstur með 28 stig, hirti 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Páll Axel Vilbergsson skoraði 27 stig og hirti 8 fráköst.

Loks vann Skallagrímur sigur á Haukum í Borgarnesi 101-89. Jovan Zdravevski skoraði 22 stig og hirti 7 fráköst fyrir Skallagrím, Dimitar Karadzovski skoraði 19 stig og gaf 6 stoðsendingar og Hafþór Gunnarsson skoraði 15 stig. Kevin Smith var atkvæðamestur í liði Hauka með 26 stig og hirti 12 fráköst, Roni Leimu skoraði 21 stig og Sævar Haraldsson skoraði 11 stig og gaf 7 stoðsendingar.

Undanúrslit keppninnar fara fram á fimmtudagskvöldið og þar mætast annars vegar Njarðvík og KR og hinsvegar Keflavík og Skallagrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×