Innlent

Þjófagengi á ferðinni á suðvesturhorninu

MYND/Róbert

Þjófagengi, sem farið hefur ránshendi víða um land upp á síðkastið var enn á ferð í nótt enda verður lögregla alltaf að sleppa fólkinu þegar játningar liggja fyrir.

Ungmennin þrjú, sem Selfosslögreglan handtók fyrr í vikunni eftir innbrot í Félagsheimilið Árnes, voru ekki fyrr laus úr yfirheyrslum seint í fyrrakvöld en þau héldu til Reykjavíkur og tóku upp fyrri iðju. Þau brutust inn í íbúðarhús í Reykjavík í gærmorgun og stálu þaðan meðal annars lyklum að glænýjum Lexus-jeppa og stálu svo jeppanum í famhaldinu.

Lögreglan gómaði karlana tvo úr hópnum á jeppanum í nótt og höfðu þeir þá líka safnað einhverju þýfi í hann. Þeir gista nú fangageymslur en verður líklega sleppt út aftur fyrir kvöldið að yfirheyrslum loknum. Við nánari athugun NFS á ferðum þessa fólks þá mun það hafa stolið bíl í Reykjavík í síðustu viku og ekið upp í Borgarfjörð, brotist inn í sumarbústaði, stolið verðmætum og unnið skemmdarverk.

Áfram var svo haldið á stolna bílnum til Húsavíkur en þar var hann yfirgefinn eftir að hann varð bensínlaus. Í honum fannst meðal annars þýfi úr Borgarfirði. Á Húsavík var stúlka úr hópnum líka tekin fyrir ölvunarakstur á lánsbíl. En þegar þegar hann og Reykjavíkurbíllinn voru úr sögunni stal hópurinn bíl á Húsavík til að halda suður heiðar og gera standhögg í Árnesi.

Hugsanlegt er að hópurinn hafi líka brotist inn í sumarbústað við Þingvallavatn. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort lögreglan í Reykjavík ætlar að reyna að fá síbrotamennina, sem gripnir voru í nótt, úrskurðaða í gæsluvarðhald.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×