Innlent

Flugvél BA hélt áfram ferð sinni í gærkvöld

MYND/Vilhelm

Flugvélin frá British Airways sem lenti á Keflavíkurflugvelli á sjöunda tímanum í gærkvöld vegna reyks í farþegarými hélt áfram ferð sinni í gærkvöld eftir að búið var að rannsaka vélina. Farþegar fóru aldrei frá borði.

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli þegar tilkynning barst um að reykur bærist um farþegarými í þotu frá Biritish Ariways sem var á leið frá London til Denver í Bandaríkjunum. 270 manns voru um borð í vélinni sem er af gerðinni Boing 777. Hátt í 300 manna lið var ræst út en sökum þess hversu atburðarrásin var hröð var mörgum snúið við áður en þeir mættu til aðgerða. Vélin var ekki nema um 50 mílur frá landi þegar áhöfnin varð reyksins var og ákvað að snúa til lendingar í Keflavík.

Innan við tíu mínútum seinna var vélin lent og menn frá slökkviliði og flugmálayfirvöldum fóru um borð. Reykurinn kom frá brauðvél og virðist rafkerfi eða mótor í henni hafa brunnið yfir með þessum afleiðingum. Lendingin gekk giftursamlega en flugvélin var yfirhlaðin af eldsneyti sem ekki var hægt að losa úr vélinni við kringumstæður þar sem grunur lék á eldi um borð.

Það varð því að yfirfara lendingarbúnað áður en hægt var að halda vélinni áfram. Vélin var dregin að landgangi á Leifsstöð en flugfélagið ákvað að hleypa farþegum ekki frá borði væntanlega til þess að spara kostnað. Flugfarþegarnir biðu því um borð í vélinni allt þar til vélin hélt áfram, áleiðis til Bandaríkjanna klukkan hálftíu í gærkvöld - þremur og hálfri klukkustund eftir að henni var lent.

Að sögn fulltrúa sýslumanns á Keflavíkurflugvelli og flugmálayfirvalda sem fóru um borð í vélina virtust farþegar nokkuð rólegir og yfirvegaðir þrátt fyrir atburðinn og veifðu þeir til myndatökumanna skömmu fyrir brottför þrátt fyrir að hafa þurft að dúsa í vélinn á fjórðu klukkustund. Aðgerðir gengu vel á vellinum í gærkvöld, að sögn þeirra sem stýrðu aðgerðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×