Innlent

Kannanir um fylgi stjórnmálaflokkanna misvísandi

Kannanir um fylgi stjórnmálaflokkanna í Reykjavík eru misvísandi. Í tveimur af þremur þeim nýjustu nær Sjálfstæðisflokkurinn ekki meirihluta í borginni og í þeirri þriðju er meirihluti flokksins mjög tæpur.

Þegar tæpur sólarhringur er þar til kjörstaðir opna klukkan tíu í fyrramálið ríkir fullkomin óvissa um úrslitin í Reykjavík ef horft er til þriggja nýrra kannanna. Í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir NFS sem birt var í gær nær Sjálfstæðisflokkurinn naumum meirihluta með 47,2 prósent atkvæða. Framsóknarflokkurinn nær ekki inn manni, en þarf aðeins um eitt prósent atkvæða til viðbótar til að fella áttunda fulltrúa Sjálfstæðismanna.

Í könnun NFS fengi Samfylkingin fjóra fulltrúa, Frjálslyndir einn og Vinstri gærnir tvo. Í könnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun bætir Samfylkingin hins vegar við sig fulltrúa ´þa kostnað sjálfstæðismanna og Framsókn nær ekki inn manni.

Fylgi Samfylkingarinnar er reyndar mest í könnun Fréttablaðsins eða um sex prósentustigum hærra en hjá NFS og í könnun Gallups frá því í gær. Í Gallup könnuninni nær Framsóknarflokkurinn inn manni, Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjö fulltrúa, Samfylkingin fjóra, VG tvo og Frjálslyndir einn.

Samkvæmt könnunum Fréttablaðsins og Gallups yrði Sjálfstæðisflokkurinn að semja við einhvern hinna flokkanna til að mynda meirihluta eða þeir flokkar gætu sameinast um myndun meirihluta og Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í minnihluta í borgarstjórn.

Kosningarannsóknir sýna að stór hluti kjósenda ákveður sig á síðustu stundu og margir jafnvel ekki fyrr en á kjördag. Þannig að kosningabaráttan stendur allt til síðustu stundar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×