Innlent

Hálfur annar milljarður í nefndir

Jóhanna Sigurðardóttir kallaði eftir upplýsing um fjölda nefnda og nefndarmanna auk kostnaðar.
Jóhanna Sigurðardóttir kallaði eftir upplýsing um fjölda nefnda og nefndarmanna auk kostnaðar.
Nefndir ráðuneytanna kostuðu ríkissjóð nær einn og hálfan milljarð króna á síðasta ári. Rúmlega helmingur þeirrar upphæðar er vegna starfa einkavæðingarnefndar.

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra út í fjölda nefnda og nefndarmanna á vegum ráðuneytanna og kostnað við rekstur þeirra.

Í svari forsætisráðherra kemur fram að heildarkostnaður vegna nefndarstarfa nam rúmum 700 milljónum króna árið 2004. Kostnaðurinn meira en tvöfaldaðist á síðasta ári og nam þá tæpum einum og hálfum milljarði króna.

Þessi kostnaðaraukning á sér einfalda skýringu. Af þeim tæpu 1.500 milljónum sem nefndirnar kostuðu voru 760 milljónir króna vegna starfa einkavæðingarnefndar. Aðrar nefndir kostuðu því rúmar 700 milljónir.

Það þarf all nokkurn mannskap til að manna allar nefndir. Alls sitja um 4.700 manns í nefndum ráðuneytanna og ef hver og einn mætti bara sitja í einni nefnd þýddi það að sextugasti hver landsmaður þyrfti að sitja í nefnd á vegum ríkisins. Einhverjir sitja þó í tveimur og fleiri nefndum og eru því taldir tvisvar eða oftar.

Flestir eru í nefndum á vegum menntamálaráðuneytisins, um 2.000 manns, en fæstir á vegum Hagstofu Íslands, aðeins þrír.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×