Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn

Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðismanna sem bæta við sig miklu fylgi.
Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðismanna sem bæta við sig miklu fylgi. MYND/E.Ól.

Sjálfstæðisflokkurinn tvöfaldar fylgi sitt í Árborg og nær hreinum meirihluta samkvæmt nýrri skoðanakönnun NFS. Þrjátíu prósent kjósenda í Árborg hafa snúið baki við Samfylkingunni og Framsóknarflokknum samkvæmt könnuninni.

Samfylkingin fer úr rúmum fjörutíu prósentum atkvæða í rúm tuttugu prósent og Framsóknarflokkurinn fer úr 28 prósentum í 18 samkvæmt könnuninni. Sjálfstæðismenn eru hins vegar sigurvegarar könnunarinnar og rúmlega tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, mælast nú með 51 prósent atkvæða en fengu fjórðung atkvæða fyrir fjórum árum.. Vinstri-grænir bæta við sig fylgi, fara úr rúmum sex prósentum atkvæða í tæp níu prósent, en ná ekki inn manni samkvæmt þessu og fylgi Frjálslynda flokksins mælist vart.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að þessar niðurstöður gætu sett aukna hörku í kosningabaráttuna. Hann benti á að þetta væri mun meiri fylgisaukning en í öðrum sveitarfélögum þar sem fylgi flokkanna hefur verið mælt að undanförnu.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, benti á að núverandi meirihluti hefði tekið við slæmu búi af Sjálfstæðismönnum fyrir fjórum árum. Þá hefðu til dæmis skólamál verið í óviðunandi standi en þar hefði verið unnið mikið og gott starf.

Þorvaldur Guðmundsson, oddviti Framsóknarmanna, dró niðurstöður könnunarinnar í efa og benti á að undirbúningur flokkanna í framboði væri misjafnlega langt á veg kominn. Hann benti á að prófkjör Sjálfstæðismanna hefði fengið mikla athygli en Framsóknarmenn væru tiltölulega nýbúnir að raða upp sínum lista.

Það líður sennilega ekki langur tími þar til skoðanakannanir fara að sýna Vinstri-græna með mann inni í bæjarstjórn sagði Jón Hjartarson, sem leiðir lista þeirra. Hann sagðist bjartsýnn á góðan árangur síns flokks og lýsti efasemdum um að íbúar Árborgar kysu yfir sig meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×