Innlent

Flestir komnir úr ungliðastarfinu

Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, er einn margra ungliða í Sjálfstæðisflokknum sem hafa komist á þing og í ráðherrastól.
Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, er einn margra ungliða í Sjálfstæðisflokknum sem hafa komist á þing og í ráðherrastól.

Sjö af hverjum tíu ráðherrum Sjálfstæðisflokksins frá lýðveldistöku hafa unnið sig upp í gegnum flokksstarfið og hafið ferilinn í ungliðahreyfingu flokksins. Þetta kemur fram í lokaritgerð Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar, nema í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Það er betra að hafa starfað innan ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins ætli menn sér pólitískan frama á þeim bænum. Þetta má lesa út úr rannsókn Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar, stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands.

Í rannsókninni kemur fram að um tveir af hverjum fimm þingmönnum flokksins frá 1944 byrjuðu stjórnmálaferil sinn í ungliðahreyfingu flokksins. Í dag er svo að meirihluti þingmanna, fimmtíu og sex prósent hafa starfað í ungliðahreyfingu flokksins.

En munurinn verður enn meiri þegar litið er til ráðherra flokksins. Sjötíu prósent af ráðherrum flokksins hafa starfað innan ungliðahreyfingar hans. Og raunar eiga fyrrum ungliðar mun meiri líkur en aðrir flokksmenn á að verða ráðherrar. Annar hver fyrrum ungliði sem hefur komist á þing hefur orðið ráðherra en innan við sjöundi hver þingmaður flokksins sem ekki hefur starfað í ungliðahreyfingunni.

Það virðist líka skipta máli um hversu snemma menn komist á þing hvort þeir hafi verið í ungliðahreyfingu flokksins eða ekki. Þeir sem þar hafa starfað koma að meðaltali 39 ára á þing. Aðrir koma þangað ekki fyrr en 47 ára, eða tveimur kjörtímabilum síðar en ungliðarnir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×