Innlent

Ekki tilkynnt um virkan eignarhlut í Búnaðarbankanum

Þýski bankinn Hauck og Afhauser tilkynnti ekki um virkan eignarhlut í Búnaðarbanka til Fjármálaeftirlitsins eða Kauphallarinnar. Þingmenn Frjáslynda flokksins og Samfylkingarinnar kröfðust þess í dag að rannsakað yrði hvort aðkoma bankans að S-hópnum hefði byggst á blekkingum. Viðskiptaráðherra segir ekkert nýtt í málinu nema tregðu Samfylkingarinnar til að skilja að ráðherra segi ekki sjálfstæðri eftirlitsstofnun fyrir verkum.

Margoft hefur komið fram að aðkoma virts erlends fjármálafyrirtækis að S-hópnum hafi reynst þungt lóð á vogarskálarnar þegar ákvörðun var tekin um að selja S-hópnum Búnaðarbankann. Þegar kaupsamningur vegna sölu á tæpum 46 prósenta hlut ríkisins var undirritaður kom fram að þýski bankinn hefði eignast um 16,3 prósenta hlut í bankanum gegnum hlutinn í Eglu.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði hvort forsætisráðherra ætlaði að rannsaka sérstaklega hvort þýski bankinn hafi verið yfirvarp. Halldór Ásgrímsson spurði hvort þingmaðurinn hefði rætt við Ríkisendurskoðun vegna málsins en sú stofnunin ætti að vera Alþingi innan handar í málinu. Hann sagði Ríkisendurskoðanda hafa tjáð sér að ekkert nýtt hefði komið fram. Málið væri margrannsakað.

Sigurjón Þórðarson sagði að það kæmi ekki á óvart að ráðherrann væri í nánum tengslum við Ríkisendurskoðanda sem hefði glatað virðingu sinni þegar hann hefði staðið í kattaþvotti í bankamálinu á sínum tíma.

Halldór Ásgrímsson sagði alvarlegt mál ef Ríkisendurskoðun nyti ekki trausts, þótt ekki væri nema eins þingflokks og það þyrfti þá að ræða það í forsætisnefnd alþingis.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði viðskiptaráðherra hvort ekki ætti beina því til Fjármálaeftirlitisins að rannsaka þessar ásakanir. Ljóst sé að hvorki Fjármálaeftirlitinu né Kauphöll hafi verið tilkynnt um virkan eignarhlut þýska bankans, hafi hann verið fyrir hendi. Þá sé ekki vitað til þess að tilkynning hafi verið send þýska fjármáleftirltinu.

Ráðherrann sagði ekkert nýtt í málinu nema tregðu Samfylkingarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×