Innlent

Mikil endurnýjun í borgarstjórn

Frá fundi í borgarstjórn.
Frá fundi í borgarstjórn. MYND/Hari

Útlit er fyrir mikla endurnýjun í borgarstjórn eftir kosningarnar í vor. Miðað við uppröðun á lista og niðurstöður skoðanakannana að undanförnu má búast við að átta af fimmtán borgarfulltrúum komi nýir inn.

Línurnar eru teknar að skýrast fyrir borgarstjórnarkosningar í maí. Nú liggur fyrir hverjir leiða lista flokkanna sem verða í framboði og miðað við skoðanakannanir að undanförnu er mikilla breytinga að vænta í borgarstjórn. Reyndar svo mikilla að átta nýir borgarfulltrúar gætu tekið sæti í fimmtán manna borgarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi átta borgarfulltrúa samkvæmt nýjustu könnunum Félagsvísindastofnunar og Heims. Samkvæmt því héldu þrír núverandi borgarfulltrúar flokksins sæti sínu en fimm kæmu nýir inn. Það eru varaborgarfulltrúarnir Gísli Marteinn Baldursson og Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrum borgarfulltrúi, og nýliðarnir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Sif Sigfúsdóttir.

Það yrði líka endurnýjun hjá Samfylkingunni sem fengi nýliðann Oddnýju Sturludóttur og varaborgarfulltrúann Sigrúnu Elsu Smáradóttur í borgarstjórn auk þess sem Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi sem var áður í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði hefur gengið til liðs við Samfylkinguna sem óháður frambjóðandi.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð fengi einn borgarfulltrúa samkvæmt nýjustu könnunum. Oddviti þeirra er nýliðinn Svandís Svavarsdóttir. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndi flokkurinn fengi borgarfulltrúa samkvæmt könnunum að undanförnu. Verði breyting þar á gæti nýliðinn Björn Ingi Hrafnsson sem leiðir lista Framsóknarmanna, eða Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins, unnið sér sæti í borgarstjórn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×