Innlent

Ráða ráðum sínum gegn Norðlingaölduveitu

Alþingi kemur saman á morgun. Þá ætla stjórnarandstæðingar að vera tilbúnir með sameiginlegan málflutning gegn Norðlingaölduveitu.
Alþingi kemur saman á morgun. Þá ætla stjórnarandstæðingar að vera tilbúnir með sameiginlegan málflutning gegn Norðlingaölduveitu.

Stjórnarandstæðingar komu saman til fundar á tólfta tímanum til að ræða sameiginlegan málflutning gegn því að ráðist yrði í framkvæmdir við Norðlingaölduveitu.

Forystumenn stjórnarandstöðunnar komu saman til fundar klukkan ellefu fyrir hádegi til að ráða ráðum sínum fyrir þingið sem hefst á ný á morgun. Meðal þeirra mála sem bar hæst var skipan fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra sem stjórnarandstæðingar höfðu lýst efasemdum um þar sem ekki átti að ræða málefni Ríkisútvarpsins. Formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar ræddu jafnframt hvernig þeir hygðust haga málflutningi sínum vegna Norðlingaölduveitu og Þjórsárvera en þeir eru sameinaðir í andstöðu sinni við þá framkvæmd.

Það eru ekki aðeins stjórnarandstæðingar sem eru andvígir Norðlingaölduveitu. Andstöðunnar gætir einnig meðal Framsóknarmanna. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður flokksins, hefur lýst andstöðu við áformin, og Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir á heimasíðu sinni að leggja eigi áform um Norðlingaölduveitu til hliðar. Ástæðurnar segir hann þær að veitan sé ekki lengur forsenda fyrir stækkun álvers á Grundartanga og að óvíst sé hvort tækist að selja orkuna frá veitunni.

Þing kemur saman til funda á morgun í fyrsta skipti frá níunda desember. Þrjátíu og tvö mál ríkisstjórnarinnar sem voru lögð fram á síðasta þingi og sextíu þingmannafrumvörp bíða afgreiðslu. Meðal þeirra sem má búast við mestum deilum um er frumvarp um Ríkisútvarpið þar sem gert er ráð fyrir hlutafélagsvæðingu þess en það hefur valdið miklum deilum. Svipaða sögu er að segja af frumvörpum að Vatnalögum og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem vöktu miklar deilur fyrir áramót.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×