Viðskipti innlent

Samrunar og sókn framundan

Þórður steig ný skref á árinu og stjórnar nú nýju fjárfestingarfélagi eftir mikil uppgangsár í forstjórastóli Straums - Burðaráss.
Þórður steig ný skref á árinu og stjórnar nú nýju fjárfestingarfélagi eftir mikil uppgangsár í forstjórastóli Straums - Burðaráss.

Árið 2006 var áhugavert fyrir marga hluta sakir en það sem bar hæst að mínum dómi var sá mótbyr sem íslensku viðskiptabankarnir fengu á sig á árinu og neikvæð umfjöllun erlendra fagaðila og fjölmiðla um þá. Þetta setti svip sinn á sókn bankanna erlendis og hægði á henni sem ég tel að mörgu leyti hafa verið jákvætt fyrir þá.

Þessi umræða jók á kröfur viðskiptabankanna um betri upplýsingagjöf og hefur styrkt innviði og skipulag flestra þeirra sem og aukið kröfur á stjórnendur. Það jákvæða við þetta allt er að nú í dag er þekking erlendra fagfjárfesta á íslensku efnahagslífi meiri en í upphafi árs sem getur fært okkur tækifæri.

Hjá mér bar það hæst að ég skipti um starfsvettvang á miðju ári og kvæntist nú í lok ársins, Nönnu Björgu Lúðvíksdóttur eftir 16 ára samband og þrjú börn, löngu kominn tími á það.

Ég er bjarsýnn á komandi ár en þróun alþjóðlegra fjármálamarkaða mun ráða umtalsverðu um þróun hérlendis. Ég tel að við eigum eftir að sjá frekari stækkun og sókn banka erlendis og jafnvel samruna banka.

Það er mikill kraftur í efnahagslífinu um þessar mundir en hættumerkin eru víða til staðar.

Því mun skipta lykilmáli fyrir fyrirtækin í landinu hvernig stjórnun efnahagsmála verður, að hún verði trúverðug og aðhaldssöm þar sem viðskiptahallinn er mikill í alþjóðlegum samanburði, vextir hafa verið háir og gengi krónunnar sterkt. Því er mikilvæg að ná jafnvægi en það gerist ekki nema með því að einstaklingar, stjórnvöld og atvinnulífið sýni ábyrgð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×