Viðskipti innlent

Mannabreytingar hjá Eimskipi

Heiðrún, sem áður var upplýsingafulltrúi Símans, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra starfsþróunar- og samskiptasviðs Eimskips.
Heiðrún, sem áður var upplýsingafulltrúi Símans, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra starfsþróunar- og samskiptasviðs Eimskips. MYND/GVA

Heiðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri starfsþróunar- og samskiptasviðs Eimskips, auk þess sem hún sinnir lögfræðilegum verkefnum.

Um leið og Heiðrún tók við nýju starfssviði um síðustu mánaðamót létu af störfum Ingunn B. Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri starfsþróunarsviðs og Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdastjóri stefnumótunar- og samskiptasviðs.

Heiðrún segir starfið leggjast vel í sig og að sér hafi verið vel tekið á nýjum stað. Hún er fædd á Húsavík árið 1969, lauk kandidatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og varð héraðsdómslögmaður haustið 1996. Hún tók próf í starfsmannastjórnun frá HA 1999 og lauk löggildingu í verðbréfamiðlun árið 2006.

Heiðrún hefur margvíslega starfsreynslu bæði af lögfræði og stjórnun. Síðast var hún framkvæmdastjóri og meðeigandi á Lex lögmannsstofu, en þar áður gengdi hún starfi upplýsingafulltrúa Símans. Heiðrún er í sambúð með Jóhannesi Sigurðssyni, aðstoðarforstjóra Milestone. Hún á tvö börn og þrjá stjúpsyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×