Viðskipti innlent

Ná þarf tökum á launamálum

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir samtökin hafa viljað sjá áætlanir um meiri afgang á fjárlögum næsta árs. Hann segir ríkið þurfa að taka á launamálum og tekur Landspítalann sem dæmi.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir samtökin hafa viljað sjá áætlanir um meiri afgang á fjárlögum næsta árs. Hann segir ríkið þurfa að taka á launamálum og tekur Landspítalann sem dæmi.

Áhætta eykst í hagstjórninni nái tillögur meirihluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld ríkisins á næsta ári fram að ganga, að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

„Hallinn á ríkissjóði hefur áhrif á heildareftirspurn í þjóðfélaginu. Ef hún er meiri en heildarframleiðslugeta hagkerfisins, líkt og reyndar hefur verið, þá er erfiðara að ráða við verðbólguna,“ segir hann og segir að Samtök atvinnulífsins hefðu viljað sjá meiri afgang á fjárlögum.

„Hins vegar höfum við ekkert á móti mörgu því sem verið er að gera. Heildarmyndin lítur hins vegar ekki jafnvel út og hún gerði þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram,“ segir hann, en kveður helst stinga í augu hækkanir tengdar bæði heilbrigðis- og menntamálum. „Máli skiptir að standa við ákvarðanir sem búið er að taka og að menn taki ekki allt aðrar ákvarðanir um útgjöld eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, líkt og greinilega var gert á Landspítalanum,“ segir hann og bætir við að svo virðist sem þar hafi verið einhliða teknar ákvarðanir um launahækkanir án nokkurs samræmis við það sem lagt hafi verið upp með.

„Í raun er alveg með ólíkindum að aldrei nokkurn tímann skuli nást nein stjórn á fjármálum þeirrar stofnunar.“ Vilhjálmur bendir á að laun séu um 60 prósent af útgjöldum ríkisins og því skipti máli að þau fari ekki úr böndum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×