Tónlist

Næsta Who-plata

Tveir rokkarar á sjötugsaldri Roger Daltrey og Pete Townshend.
Tveir rokkarar á sjötugsaldri Roger Daltrey og Pete Townshend.

Fyrstu dómar tóku að birtast í gær um nýjan disk bresku hljómsveitarinnar Who en hann ber yfirskriftina Endless Wire og er fyrsta safn nýsmíða sem kemur frá hljómsveitinni í 24 ár. Raunar eru aðeins tveir af upphaflegu hljómsveitarmönnunum á lífi, Keith Moon og John Entwhistle eru báðir látnir og verður engu kennt um ótímabært andlát þeirra en ofneyslu áfengis og annarra vímuefna.

Á lífi eru þeir Pete Townshend og Roger Daltrey. Á disknum nýja eru níu lög, þar af tíu mínútna ópus sem kallast Wire and Glass. Bandarísku útgáfunni fylgir dvd-diskur með tónleikum þeirra frá liðnu sumri í Lyon, en hér á landi verður hann án þess viðauka.

Bæði gagnrýnandi Washington Post og Boston Globe eru hrifnir af verkinu og segja þá félaga feti framar flestum jafnaldra hljómsveitum frá sjöunda áratugnum sem enn eru að eða í öndunarvélum. Telja þeir upp fjölda laga sem hafa í sér gamla neistann sem sé til vitnis um að þeir félagar séu enn í þróun og síður en svo staðnaðir. Gagnrýnandi Times er ekki hrifinn og gefur disknum fjórar stjörnur, segir frægan raddstyrk Daltreys ekki svip hjá sjón og verkið standi langt að baki þeirra bestu verkum fyrr á tíð.

Who var ein af unglingahljómsveitunum sem fram komu á miðjum sjöunda áratugnum í Bretlandi og áttu þeir hvað mestum vinsældum að fagna er rokkóperan Tommy kom út en hún var síðar kvikmynduð. Þeir gáfu út fjölda lagasafna og telja margir verk þeirra frá 1971, Who"s Next, vera eina bestu rokkplötu allra tíma.

Von mun á Endless Wire í allar betri hljómlötuverslanir í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×