Viðskipti innlent

Hildingur kaupir Sandblástur og málmhúðun hf.

Fulltrúar nýrra eigenda Sandblásturs og málmhúðunar hf. Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Tómas Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Sandblásturs og málmhúðunar og Jón Dan Jóhannsson, fráfarandi framkvæmdastjóri.
Fulltrúar nýrra eigenda Sandblásturs og málmhúðunar hf. Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Tómas Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Sandblásturs og málmhúðunar og Jón Dan Jóhannsson, fráfarandi framkvæmdastjóri.

Fjárfestingarfélagið Hildingur ehf. hefur keypt 44 prósenta hlut í Sandblæstri og málmhúðun hf. og er nú stærsti hluthafinn í félaginu.

Tveir stjórnendur hjá félaginu hafa aukið sinn eignarhlut og eiga átján prósent hvor, þeir Tómas Ingi Jónsson, fjármálastjóri félagsins og Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, dótturfélags Sandblásturs og málmhúðunar í Hafnarfirði. Jón Dan Jóhannsson framkvæmdastjóri mun láta af störfum en eiga áfram 20 prósenta hlut í félaginu og sitja í stjórn þess. Tómas Ingi Jónsson tekur við starfi framkvæmdastjóra.

Haft er eftir Bjarna Hafþóri Helgasyni, framkvæmdastjóra Hildings, í fréttatilkynningu frá félaginu að sóknarfæri séu í starfsemi Sandblásturs og málmhúðunar á ýmsum sviðum. Félagið hafi getið sér góðs orðs fyrir gæði og góða þjónustu og stefnt sé að því að efla þá starfsemi enn frekar.

Þess er ekki að vænta að stórar breytingar verði gerðar á starfsemi félagsins þótt áherslur muni að einhverju leyti breytast með nýjum mönnum. Að sögn Tómasar Inga Jónssonar, nýs framkvæmdastjóra félagsins, eru þegar uppi hugmyndir um ný skref, bæði hvað varðar innri og ytri vöxt fyrirtækisins.

Starfsmenn Sandblásturs og málmhúðunar hf. eru yfir sextíu talsins. Félagið þjónar einstaklingum og málmiðnaðarfyrirtækjum og eru helstu þættir í starfseminni stálsmíði, zinkhúðun, stálsala og sala á vörum tengdum málmiðnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×