Fastir pennar

Sýnir ógöngur Íraksstefnu Bush

Bandaríska stórblaðið The New York Times greinir frá því í gær að í trúnaðarskýrslu, sem hefur að geyma samantekt á mati bandarískra leyniþjónustustofnana á hættunni á hryðjuverkum, sé komizt afdráttarlaust að þeirri niðurstöðu að innrásin í Írak og hernám landsins hafi alið af sér heila nýja kynslóð íslamskra öfgamanna og hættan á hryðjuverkum gegn bandarískum skotmörkum hafi aukizt til muna síðan 11. september 2001.

Að sögn blaðsins var lokahönd lögð á þessa skýrslu í aprílmánuði síðastliðnum. Í henni er kveðið mun skýrar að orði en í öðrum nýlegum gögnum Bandaríkjastjórnar um það hve þýðingar­miklu hlutverki Íraksstríðið gegndi í að kynda undir útbreiðslu íslamskrar öfgahugmyndafræði í heiminum á síðustu árum.

Í skýrslunni, sem ber titilinn „Þróun hryðjuverkastarfsemi í heiminum og hvernig hún snertir Bandaríkin", segir „að Íraks­stríðið hafi gert heildarhryðjuverkavandann verri," að því er New York Times hefur eftir leyniþjónustumanni sem kom að gerð skýrslunnar. Nafns hans er ekki getið enda um trúnaðarplagg að ræða, en blaðið segist hafa rætt við fjölda manna sem annað hvort komu að gerð skýrslunnar eða hafa lesið hana í sinni endanlegu mynd.

Þessar niðurstöður eru mjög í samræmi við mat evrópskra leyniþjónustna, til dæmis birti danska öryggislögreglan skýrslu á dögunum þar sem komizt er að sömu niðurstöðu. Þessar niður­stöður koma líka fáum sem fylgjast með alþjóðamálum á óvart. Þær eru hins vegar í augljósri mótsögn við þá mynd sem ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hefur viljað halda fram um afleiðingar innrásarinnar í Írak. Forsetinn og varnarmálaráðherrann Donald H. Rumsfeld hafa reynt að telja bandarískum almenningi trú um að hernaðurinn í Írak sé mikilvægur áfangi í „stríðinu gegn hryðjuverkum" og að heimurinn sé öruggari eftir innrásina en fyrir hana.

Í grein New York Times er einnig vitnað til nýlegrar skýrslu óháðs, fjölþjóðlegs hóps sérfræðinga í hryðjuverkamálum, Council on Global Terrorism, þar sem sérfræðingarnir gefa þeim ráðstöfunum sem bandarísk stjórnvöld hafa gripið til á undanliðnum fimm árum í baráttunni gegn hryðjuverkaógn íslamskra öfgamanna falleinkunnina „D plús". Hópurinn ályktaði að „allar vísbendingar bentu til að öfgahreyfingum í múslimalöndum sé að vaxa fiskur um hrygg en ekki öfugt".

Í skoðanakönnunum vestra hefur komið fram að æ fleiri Bandaríkjamenn telja hernaðinn í Írak ekki þjóna hagsmunum þeirra, einmitt af þessari ástæðu: að hann beinlínis kyndi undir andúð á Bandaríkjunum í löndum múslima og geri öfgahópum auðveldara að fá fleiri menn til liðs við sig, úti um allan heim. Þetta er áhyggjuefni fyrir Bush og samherja hans í Repúblikanaflokknum, nú þegar innan við tveir mánuðir eru til kosninga til beggja deilda Bandaríkjaþings. Það kæmi því ekki óvart þótt ríkisstjórn Bush breytti á næstunni um áherzlur varðandi hina kostnaðarsömu hernaðar­útgerð í Írak. Að minnsta kosti er ljóst að Íraksmálin gefa höggstað á Bush og stjórn hans sem gagnrýnendur hans og andstæðingar í bandarískum stjórnmálum munu vafalaust geta nýtt sér í komandi kosningum.

Þessar niðurstöður koma fáum sem fylgjast með alþjóðamálum á óvart. Þær eru hins vegar í augljósri mótsögn við þá mynd sem ríkisstjórn George W. Bush hefur viljað halda fram um afleiðingar innrásarinnar í Írak.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×