Fastir pennar

Óeining Evrópu

Síðastliðinn föstudag lýstu utanríkisráðherrar Evrópusambandsins því sem mikilvægum árangri, að samkomulag skyldi hafa náðst um framlag Evrópuríkjanna til að fylla raðir hins alþjóðlega friðargæsluliðs sem samkvæmt vopnahlésáætlun Sameinuðu þjóðanna á að gæta friðarins í Suður-Líbanon. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sem boðið var á fundinn í Brussel, vottaði að með ákvörðuninni um að leggja alþjóðaliðinu til alls um sjö þúsund hermenn af 15.000 „axlaði Evrópusambandið ábyrgð".

En sú eining um þetta vandasama verkefni sem ráðamenn ESB-ríkjanna létu í skína á þessum fundi er varla fyrir hendi þegar nánar er að gáð. Elmar Brok, þýzkur þingmaður á Evrópuþinginu sem gegnir formennsku í utanríkismálanefnd þess, lét hafa eftir sér að hið margra vikna „hringl" í kringum leitina að evrópskum hermönnum í alþjóðlega friðargæsluliðið væri einfaldlega „neyðarlegt".

Reyndar hefur trúverðugleiki Frakka sem forgönguþjóðar um að koma á friði í Líbanon - sem um hríð var undir nýlendustjórn þeirra - beðið hnekki eftir að þeir gáfu til kynna í byrjun ágúst að þeir væru reiðubúnir að senda allt að 5.000 hermenn til friðargæzlu þar, en bökkuðu svo með það og lofuðu í fyrstu aðeins 200 hermönnum til viðbótar þeim 200 frönsku liðsmönnum UNIFIL sem fyrir eru í Líbanon. Þegar upp var staðið verða frönsku hermennirnir alls tvö þúsund og hikið varð til þess að betri skikk var komið á starfsreglur þær sem friðargæsluliðunum mun ætlað að starfa eftir. En hringlið gróf undan forystutilkalli Frakka og undirstrikaði veikleika sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB-ríkjanna.

Hversu illa er ástatt um svonefnda sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins vottaði finnski utanríkisráðherrann Erkki Tuomioja í blaðaviðtali fyrir skemmstu, en á hann er hlustað af athygli í höfuðborgum Evrópu þessa dagana þar sem Finnar gegna formennskunni í sambandinu síðari helming ársins.

Tuomioja sagði hina 24 kollega sína stunda óheilindalegt leynimakk og að þeir byggju sig undir ráðherraráðsfundi rétt eins og þeir væru að fara í „samningaviðræður við hugsanlega fjandsamleg lönd". Hann kvartaði yfir því að hvert einasta skjal sem varðaði deilurnar í Miðausturlöndum væri „innan klukkustundar þekkt í Tel Aviv og sennilega Washington og Moskvu líka". Útilokað væri að reka sameiginlega utanríkisstefnu, sem undir því nafni stæði, svo lengi sem svona háttaði til.

Reyndar var stofnun nýs varanlegs embættis utanríkisráðherra ESB ein af meginbreytingunum sem til stóð að gera á Evrópusambandinu með stjórnarskrársáttmálanum svonefnda, en eins og kunnugt er strandaði fullgilding hans eftir að meirihluti kjósenda í Frakklandi og Hollandi hafnaði honum í þjóðaratkvæðagreiðslum í fyrra. Vel er hægt að ímynda sér að slíkur yfirráðherra yrði fær um að samræma betur stefnu ESB-landanna í máli sem þessu. En að óbreyttu er sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna ESB enn í skötulíki, eins og dæmin sanna. Gleymdur er sá metnaðarfulli draumur Jacques Chirac Frakklandsforseta að Evrópa - les Evrópusambandið - gæti einn góðan veðurdag orðið trúverðugt „mótvægi" við Bandaríkin í alþjóðakerfinu.

Engu að síður er metnaðurinn til að byggja upp sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu enn fyrir hendi innan ESB og aldrei að vita nema hann muni á endanum leiða af sér öllu stærri sigra en þann sem kynntur var sem slíkur í Brussel á föstudaginn.

Að óbreyttu er sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna ESB enn í skötulíki, eins og dæmin sanna. Engu að síður er metnaðurinn til að byggja upp slíka stefnu enn fyrir hendi innan ESB og aldrei að vita nema hann muni á endanum leiða af sér öllu stærri sigra en þann sem kynntur var í Brussel á föstudaginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×