Fótbolti

Óvíst hvað tekur við í haust

Hafnfirðingurinn Emil Hallfreðsson hefur staðið sig vel hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Malmö í ár en hann kom til liðsins um áramótin. Þangað var hann lánaður frá enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham sem hann er samningsbundinn. Hvað tekur við í haust er enn í lausu lofti en að öllu óbreyttu heldur hann aftur til Tottenham þegar tímabilið í Svíþjóð er búið.



"Ég er samningsbundinn Tottenham út tímabilið í vor og á þá möguleika á að semja í eitt ár til viðbótar," sagði Emil við Fréttablaðið er hann var á leiðinni aftur til Svíþjóðar frá Austurríki þar sem hann lék með landsliði Íslands skipuðu leikmönnum 21 árs og yngri. "Ég veit í sjálfu sér ekki hvað tekur við og reyni eins og er að hugsa sem minnst um það. Ég hef heyrt af áhuga hjá Malmö að halda mér og semja við mig og ég veit að þeir eru ánægðir með mig. En ég veit sjálfur ekki fyrir víst hvað ég vil gera."



Aðspurður segist hann jafnvel velta fyrir sér að fara aftur í Tottenham og berjast fyrir sæti sínu þar. "Ég veit að það yrði mjög erfitt enda er liðið búið að styrkja sig mikið að undanförnu. Þetta verður tíminn einn að leiða í ljós og ætla ég að einbeita mér að því að standa mig vel með Malmö og ná sem flestum leikjum undir beltið."



Hann segist þó vera orðinn þreyttur enda hafi hann ekki fengið almennilegt frí lengi. "Þegar tímabilinu lýkur í haust verða komnir 16 mánuðir í röð og ég er orðinn svolítið þreyttur."

En hann hefur þó verið frá á þessum tíma, bæði vegna meiðsla og veikinda. "Þetta ár byrjaði ekki vel og ég missti af fyrstu fimm leikjum Malmö í vor. En síðan þá hef ég leikið vel flesta leiki liðsins."

Sem stendur er Malmö í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Hammarby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×