Innlent

Tveir möguleikar Sundabrautar kynntir

Lega annars áfanga sundabrautar Rauðu línurnar tákna mögulega legu, og er sú efri ytri leiðin, en sú neðri innri.
Lega annars áfanga sundabrautar Rauðu línurnar tákna mögulega legu, og er sú efri ytri leiðin, en sú neðri innri.

Annar áfangi Sundabrautar hefur verið kynntur í tillögu að matsáætlun, sem fyrirtækið Línuhönnun hf. stóð að. Áfanginn mun vera 8 km langur vegur sem þverar Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð og eru möguleikarnir tveir, ytri og innri leið.

Vegurinn verður átta kílómetrar og talið er að lagning brautarinnar út í Geldinganes geti hafist árið 2008. Þar á samkvæmt skipulagi að rísa 8-10.000 íbúa byggð og verður fyrstu lóðunum úthlutað á þessu ári.

Samkvæmt skýrslu Línuhönnunar er Sundabraut talin nauðsynlegur hlekkur í stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins og forsenda fyrir uppbyggingu í Geldinganesi og Álfsnesi. Helstu atriði sem taka þurfi tillit til séu dýralíf, landslag, gróðurfar, fornleifar, vatnsvernd og hljóðmengun. Auk þess séu tvær eyjar á Kollafirði á náttúruminjaskrá auk Úlfarsár, Varmár, Blikastaðakróar og Leiruvogs og taka beri tillit til þess við lagningu brautarinnar.

Almenningi er gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi framkvæmdina og gefst frestur til 19. júlí til að hafa samband við Línuhönnun vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×