Innlent

Aðgreining bók- og starfsnáms afnumin

tækifæri Hugmyndin um breyttan framhaldsskóla býður upp á fjölmörg tækifæri. Ungt fólk mun væntanlega hafa úr nýjum spennandi námsleiðum að velja innan skamms.
tækifæri Hugmyndin um breyttan framhaldsskóla býður upp á fjölmörg tækifæri. Ungt fólk mun væntanlega hafa úr nýjum spennandi námsleiðum að velja innan skamms.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra boðar nýja sýn á tilhögun framhaldsskólanáms hér á landi. Afnumin skal aðgreining náms í starfsnám og bóknám svo úr verði ein heild með fjölmörgum mismunandi námsleiðum. Með þessu er ætlunin að gera starfsnám jafngilt bóknámi í þeirri von að nemum í iðn- og starfsnámi fjölgi. Skólum verður veitt frelsi til að skipuleggja og bjóða nám í samræmi við þarfir nemenda og kröfur næsta skólastigs eða þeirrar atvinnu sem hugur nemenda stefnir til.

Þessar róttæku hugmyndir eru byggðar á skýrslu nefndar sem skipuð var til að endurskoða starfsnám. Nefndin gekk lengra í tillögum sínum en upphaflega var lagt af stað með enda segir formaður hennar, Jón B. Stefánsson, skólameistari Fjöltækniskóla Íslands, að ekki hafi verið hægt að móta raunhæfar hugmyndir án þess að taka tillit til framhaldsskólanáms á heildrænan hátt. Þorgerður telur að aukin áhersla á iðn- og starfsnám sé nauðsynleg til að takast á við breyttar aðstæður í samfélaginu og þarfir atvinnulífsins og háskólanna í landinu. "Hugmyndir og orðræðan um starfsnám annars vegar og bóknám hins vegar eru lagðar til hliðar og nú verður aðeins talað um framhaldsskóla. Að mínu mati skapar þessi hugsun ákveðna heildarmynd og býður upp á endalaus tækifæri."

Námið í hinum nýja framhaldsskóla, eins og nefndarmenn kjósa að kalla hann, verður byggt upp af kjarna í íslensku, stærðfræði og ensku en allt nám þar fyrir utan verður metið jafnt til stúdentsprófs. Námið umfram kjarnafögin verður skipulagt í samstarfi framhaldsskóla, háskóla og atvinnulífsins.

Aðspurð hvort umræðan um styttingu náms til stúdentsprófs sé með þessum hugmyndum úr sögunni, segir Þorgerður að hugmyndirnar séu í samræmi við það sem rætt hafi verið á milli ráðuneytisins og Kennarasambands Íslands varðandi tíu skrefa samkomulagið.

"Ég hef sagt að ef skólar vilja vera lengur þá verði þeir lengur en það eru ákveðnar kröfur sem þeir þurfa að uppfylla. Ég held að þessar tillögur séu í samræmi við breyttu námsskipanina og við erum komin vel á veg þar. Við ættum að koma upp úr skotgröfunum hvað varðar tímann, við vitum að hann má nýta betur, og huga fyrst og fremst að inntaki námsins. Við verðum að veita skólunum meira frelsi og minnka miðstýringu. Hér gefst tækifæri fyrir alla skóla að halda í sín sérkenni ef þeir kjósa svo."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×