Fastir pennar

Land, þjóð og tunga

Vinur minn einn sagði mér fyrir mörgum árum söguna af því, þegar hann var úti í garði einu sinni sem oftar að leika sér barn að aldri og mamma hans stóð yfir pottunum inni í eldhúsi að útbúa hádegisverðinn handa þeim. Nema þá sá hann skyndilega skærbjartan blossa, svo bjartan, að hann sá ekki handa sinna skil, og heyrði síðan háan hvell, svo háan, að hann hefur æ síðan búið við skerta heyrn á öðru eyra.

Þetta var í Varsjá, árið var 1944.

Þýzk herflugvél hafði varpað sprengju á húsið, eitt brotið hæfði móður drengsins og dró hana til dauða. Faðir drengsins var gyðingur, en hafði tekið kaþólska trú móðurinnar og meira að segja skipt um nafn til enn frekara öryggis. Heimilisfaðirinn reyndi að skýla fjölskyldunni með því að búa sjálfur í öðrum borgarhluta. Móðir og sonur höfðu komið fáeinum sinnum að heimsækja föðurinn; syninum var uppálagt að þéra pabba sinn til að vekja ekki grunsemdir hnýsinna nágranna um blóðbönd. Fjölskyldan átti það samt á hættu, að upp kæmist um gyðinglegan uppruna föðurins. Þá hefðu þau öll verið send til Auschwitz. Og nú stóð drengurinn uppi móðurlaus. Hann var átta ára.

Faðirinn komst ekki frá Póllandi, landið var lokað, en hann lét smygla drengnum norður yfir Eystrasaltið til Svíþjóðar, og þar var honum fyrst um sinn komið fyrir á munaðarleysingjahæli og síðan í heimavistarskóla hjá kaþólskum nunnum í Stokkhólmi. Fyrsta daginn í skólanum var drengurinn leiddur inn í átta ára bekk, mállaus og nær lamaður af angist: augu allra barnanna í bekknum hvíldu á honum. Hann greip hönd kennslukonunnar í hjálparlausu fáti og þrýsti að vörum sér og kyssti hana. Þetta var pólsk kurteisi. Börnin sprungu úr hlátri. Umkomuleysinginn átti þá ósk heitasta, að gólfið - nei, jörðin! - gleypti hann. Á þeirri stundu tók hann ákvörðun: hann einsetti hann sér, að hann skyldi læra mál hinna, sænsku - svo vel, að enginn skyldi hlæja að honum.

Sex eða sjö árum síðar skrifaði hann ritgerð um reynslu sína, ritgerð, sem hann átti í einu snjáðu vélrituðu handriti og sýndi nánum vinum sínum, ef tilefni gafst. Ritgerðin heitir Hvers vegna? Hún er neyðaróp fimmtán ára unglings frammi fyrir vonzku heimsins og lýsir níðingsverkum nasista í Póllandi og öðrum hörmungum af sjaldgæfum sjónarhóli. Ritgerðin er skrifuð á fegurri sænsku en flestir innfæddir Svíar hafa á valdi sínu.

Höfundurinn heitir Marian Radetzki og er einn helzti hagfræðingur Svía. Hann hefur nú sent frá sér sjálfsævisögu (Sverige, Sverige! Fosterland?, 2005). Þar raðar hann saman sögunum úr fortíð sinni og fjölskyldu sinnar eins og perlum á band og birtir nú í fyrsta skipti bernskuritgerð sína. Hún er ekki síður áhrifamikil á prenti nú en hún var fyrir mörgum árum í fölnuðu handriti höfundarins. En fortíðin er samt ekki aðalefni bókarinnar eða helzta áhugamál höfundarins, heldur framtíðin. Hann útmálar fyrir lesendum sínum mikilvægustu ákvörðun ævi sinnar: að ná valdi á tungu fósturlandsins nýja og semja sig að siðum þess til að eiga það síður á hættu að hafna utan garðs í samfélaginu.

Þessi boðskapur Radetzkis á brýnt erindi við marga nýbúa Svíþjóðar og annarra Evrópulanda, því að margir þeirra lifa eins og í eigin heimi, einangraðir að kalla frá heimamönnum. Evrópa er bræðslupottur ekki síður en Bandaríkin: hlutfall nýbúa í íbúafjöldanum er nú orðið svipað á báðum stöðum. Munurinn er sá, að Bandaríkin hafa verið bræðslupottur frá fyrstu tíð. Evrópa er annað mál: þar búa ólíkar þjóðir hver á sínum stað og hafa gert um aldir og árþúsundir, og þær hafa ekki langa reynslu af því að taka við nýbúum víðs vegar að. Evrópu er að því skapi meiri vandi á höndum en Bandaríkjunum í samskiptum við nýbúa. Þeim mun brýnni er boðskapur Radetzkis til nýbúanna: Lærið málið! Temjið ykkur siði heimamanna! When in Rome, do as the Romans do!

Radetzki tekur í rauninni undir með Snorra Hjartarsyni, þar sem skáldið segir: Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné. En móðurmissir og föðurlands þarf ekki að dæma menn úr leik á nýjum stað, ef þeir skilja nauðsyn þess að breiða út faðminn á móti nýju landi, nýrri þjóð, nýrri tungu. Einmitt þetta er höfuðstyrkur Bandaríkjanna. Af þessu getur Evrópa lært. Og Ísland. Við öll.






×