Fastir pennar

Tilskipun Viðskiptaþings

Um daginn greip um sig almenn skelfing í samfélaginu þegar Páll Valsson útgáfustjóri lét í ljós illan grun sinn um að íslenska verði ekki töluð hér á landi eftir hund­rað ár. Í því ljósi var furðu hljótt um boðskap frá samkomu sem kallaði sig Viðskiptaþing og kvað á um nauðsyn þess að allir Íslendingar yrðu sem fyrst jafnvígir á ensku og íslensku - það er að segja tvítyngdir.

Ekki er hægt að kalla Viðskiptaþing einhverja grínistasamkomu. Þetta er vettvangur þeirra sem láta að sér kveða í hinu svonefnda viðskiptalífi - þennan vettvang notar forsætisráðherra landsins til að koma á framfæri hugmyndum sínum um samskipti Íslendinga við Evrópusambandið; þarna ráðslaga menn um það hvernig hér skuli umhorfs árið 2015; þarna er stefnan sett; kúrsinn settur. Þetta er nokkurs konar kirkjuþing viðskiptalífsins og þarna sitja erkiklerkar útrásarinnar og kardínálar kauphallanna - og múllar markaðssamfélagsins - í nokkurs konar frumglæði frumkvöðlaandans og leggja á ráðin um það hvers konar þjóð þeir ætli að hafa þetta næstu árin.

Sem sé: allir Íslendingar verða að hafa fullt vald á ensku til að þjóðin geti orðið samkeppnisfær á næstu árum - það var sérstaklega tekið fram í boðskapnum að þetta gilti um alla Íslendinga. Annars sé hætt við að hún dragist aftur úr. Því gjörir Viðskiptaþing það heyrinkunnugt að enska skuli kennd öllum börnum frá því þau setjast í grunnskóla en dregið úr íslenskukennslu að sama skapi - en íslenskan skuli þó vernduð eins og frekast sé kostur - svona eins og maður myndi láta stoppa upp eftirlætisköttinn sinn - en að því stefnt að hér verði þjóð sem talar tungum tveim. Ekki fylgdi sögunni hvers konar ensku þjóðinni bæri að tala; ameríska, enska, indverska, jamaíska eða þess háttar náttúrulaust mál sem við heyrum til dæmis stundum í þessum yfirþjóðlegu guðspjallamyndum sem sjónvarpið sýnir alltaf fyrir jólin og hljómar ískyggilega eins og esperanto...

Af er sú tíð þegar frændi minn Jón Ólafsson blaðamaður og skáld og ævintýramaður reyndi að telja Íslendinga á að flytja til Alaska og myndi þjóðtunga þeirra svo breiðast út um öll Bandaríkin vegna yfirburða sinna yfir ensku...

Einhver kynni að spyrja: Hvaðan kemur búðalokum og kaupahéðnum vald til að ráðskast með íslenskt skólakerfi og gefa út tilskipanir um íslenska menningu? En það er ekki sanngjarnt því vitaskuld mega þeir hafa sínar skoðanir á málinu og vitaskuld geta drengir sem voru hysknir í skóla fundið til þess þegar þeir eru í útrásinni að þeir hefðu mátt vera duglegri í enskutímunum; við verðum líka að sýna því skilning að mönnum getur þótt þeir koma asnalega fyrir svona harðmæltir og kollhúfulegir með íslenskar áherslur á enskunni - til dæmis þegar þeir eru að reka fólk í fyrirtækjum sem þeir voru að kaupa.

En þótt maður geti sýnt slíkum vandræðum vissan skilning þá er heldur langt gengið að leggja íslenskuna af sem þjóðtungu, því vitaskuld gerist það í kjölfar þess að skólakerfið leggst á sveif með afþreyingariðnaðinum við að innræta börnunum enskuna. Hvað er þá orðið okkart starf? mætti spyrja með þjóðskáldinu, og eins og gætum við spurt: hvað verður um frumkvöðlaandann? Eða er ekki betra vegarnesti í útrásinni að geta lesið Eglu og sett saman ferskeytlu en að hugsa og hljóma eins og einhver gufan úr viðskiptadeild samvinnuskólans í Vejle.

Halda menn að Björgólfur Guðmundsson hafi orðið svona ríkur af því að hann sé svo góður í ensku? Er marktæk fylgni milli þess að vera snjall í viðskiptum og taka há enskupróf?

Sannleikskornið í þessum geggjuðu hugmyndum er auðvitað það að Íslendingum er það mikilvægara en öðrum þjóðum að vera duglegir að læra erlend tungumál, vegna landlægrar eymennsku sinnar - til þess blátt áfram að læra að hugsa í heiminum á margs konar hátt. Í menntaskóla á að brýna fyrir krökkum að læra spænsku og þýsku ekkert síður en vektora og lógarytma.

Það sem ég held hins vegar að hugmyndasmiðir Viðskiptaþingsins hafi ekki hugsað nægjanlega vel út í er að sá krakki sem lærir móðurmálið vel - í þessu tilviki íslensku - er betur í stakk búinn að læra önnur mál vel en hinn krakkinn sem fær ekki mörg og safarík orð að næra sig á heldur bara eitt orð yfir hvert fyrirbæri í nánasta umhverfi. Með öðrum orðum: krakki sem er vel mæltur á íslensku verður vel mæltur á ensku - og öll hin málin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×