Innlent

Bogi efast ekki um nýjar ákærur

Verður ákært að nýju í Baugsmálinu í þeim liðum sem Hæstiréttur hefur vísað frá? Bogi Nilsson ríkissaksóknari vonast til þess að niðurstaða liggi fyrir á þessu ári.  Hann telur engan vafa leika á að lögin leyfi að ný ákæra verði gefin út. Hann segir skiptingu málsins ekki brjóta gegn lögum um meðferð opinberra mála. Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu, hefur látið hafa eftir sér að hann telji það brjóta gegn meðferð opinberra mála að ef sama málið verði sótt úr tveimur áttum það er bæði af ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra. Bogi Nilson ríkissaksóknari segir ummæli Gests ástæðulaus enda styðji lagabókstafir sem Gestur hafi vísað til  það að ákvörðunin hafi verið byggð á lögum. Bogi segir ennfremur að  að í þessu lögum segi að ríkissaksóknari geti tekið mál hvenær sem er úr höndum lögreglustjóra. Í öðru lagi segir að lögreglustjóri geti leitað til ríkissaksóknara, til dæmis ef mál eru mjög vandasöm, og hann sé óviss um hvort gefa skuli út ákæru. Ástæðuna fyrir því að ríkissaksóknari hafi skilið átta ákæruliði eftir hjá ríkislögreglustjóra segir Bogi vera að sá hluti ákærunnar sé enn til umfjöllunar hjá dómstólum og að ríkissaksóknari geti falið lögreglustjórum að fara með mál fyrir dómstóla. Framundan hjá embættinu er að fara yfir þau gögn sem liggja að baki ákæruliðunum 32 sem Hæstiréttur vísaði frá. Eftir þá vinnu mun koma í ljóst hvort ákært verði að nýju. Gögnin bárust í nokkrum pappakössum í dag og hafist verður handa við að fara yfir þau að fullum krafti á morgun. Hann segir þrjá til fjóra starfsmenn embættisins sem munu vinna að málinu og vonast hann til að ákvörðun um hvað verði gert í framhaldinu ráðist fyrir áramót. "Hér skal hafa í huga að hér eru ekki margir starfsmenn, auk þess sem þeir eru í fullu starfi við að sinna hæstarétti og héraðsdómssólum samkvæmt dagskrá. Því þurfum við nú að hliðra til fyrir þessu máli," segir Bogi Nilsson ríkissaksóknari. >


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×