Innlent

Ríkisstjórnin klúðraði málinu

Stjórnarandstæðingar telja mun erfiðara að taka á úrskurði kjaradóms eftir að hann tekur gildi um áramót en hefði verið ef þing hefði komið saman fyrir áramót.
Stjórnarandstæðingar telja mun erfiðara að taka á úrskurði kjaradóms eftir að hann tekur gildi um áramót en hefði verið ef þing hefði komið saman fyrir áramót.

Klúður er orðið sem stjórnarandstæðingar nota yfir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði kjaradóms. Þeir eru afar ósáttir við að forystumenn ríkisstjórnarinnar vildu ekki kalla þing saman til að fresta gildistöku launahækkunar þingmanna og ráðherra.

Formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna funduðu í dag eftir að ákvörðun stjórnvalda um að kveða þing ekki saman fyrir áramót lá fyrir. Allir viðmælendur NFS úr þeirra röðum eru sammála um að mun erfiðara verði að bregðast við úrskurði kjaradóms eftir áramót þegar hann hefur tekið gildi en hefði verið ef gildistöku hans hefði verið frestað.

"Það eru vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki grípa það tækifæri sem stjórnarandstaðan rétti upp í hendurnar á henni, fyrst á Þorláksmessu þegar nægilegt svigrúm var til að láta þing koma saman og síðan ítrekuðum við þetta í gær," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Hún er ósátt við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eftir að kjaradómur komst að niðurstöðu sinni. "Þeir hafa haft öll tækifæri í málinu og þeir eru einfaldlega búnir að klúðra því."

"Ég er furðu lostinn," segir Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að kalla þing ekki saman. "Nú er ljóst að vegna klúðurslegra vinnubragða ríkisstjórnarinnar mun þing ekki koma saman fyrir áramót eins og stjórnarandstaðan bauð upp á."

"Það er náttúrlega fyrst og fremst klúður hjá ríkisstjórninni að hafa ekki valið að þiggja tilboð stjórnarandstöðunnar um að klára þetta fyrir áramót með því að fresta gildistöku úrskurðarins," segir Guðjón A. Magnússon.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×