Innlent

Jónarnir báðir álitleg ráðherraefni

Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson koma sterklega til álita sem ráðherraefni Samfylkingarinnar, ef sú staða kemur upp að leita þurfi út fyrir þingflokkinn. Þetta segir formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún telur að stór hópur framsóknarmanna eigi samleið með Samfylkingunni en telur umræðu um sameiningu flokka ekki tímabæra.

Þingflokkur Samfylkingarinnar ásamt framkvæmdastjórn og framtíðarhópi sitja nú tveggja daga vinnufund á hinu nýreista Hótel Hamri við Borgarnes. Það var ekki erfitt að giska á hvert væri helsta umræðuefnið í kaffihléinu. Það var heimkoma Jóns Baldvins og viðtalið í Silfri Egils í gær. Þar kvaðst Jón Baldvin hafa ódrepandi og vaxandi áhuga á pólitík og hann væri nú róttækari en áður. Hann kvaðst þó enga löngun hafa til að setjast inn á Alþingi að nýju. Spurður hvort hann myndi hafna ráðherraembætti yrði slíkt boðið kvaðst Jón Baldvin ekki skorast undan ábyrgð.

Ingibjörg Sólrún segir það gríðarlega auðlind fyrir Samfylkinguna að eiga mann eins og Jón Baldvin innan sinnan vébanda. Hann geti orðið mikil hugmyndaveita fyrir Samfylkinguna. Hún rifjaði upp að Jón Baldvin sagði í Silfri Egils í gær að hann hefði ekki áhuga á að setjast aftur að karpi í þinginu en að hann myndi ekki skorast undan ábyrgð ef hann yrði beðinn um að taka að sér ráðherraembætti. Hún sagði óvíst hverjir yrðu í framboði fyrir Samfylkinguna næst og hverjir yrðu ráðherraefni. Hins vegar kæmu bæði Jón Baldvin og Jón Sigurðsson til greina sem ráðherrar ef Samfylkingin þyrfti að leita út fyrir þinglið sitt að ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×