Innlent

Skuldabréfaútgáfa erlendra aðila í íslenskum krónum nemur 10% af landsframleiðslu

MYND/Vísir

Skuldabréfaútgáfa erlendra aðila í íslenskum krónum nemur nú 10% af landsframleiðslu. Deutsche Bank gaf í vikunni út skuldabréf í íslenskum krónum fyrir um einn milljarð króna en nokkurt hlé hafði verið á útgáfunni. Á seinni hluta næsta árs koma um fjörtíu milljarðar króna til greiðslu.

Erlendir aðilar hafa gefið út skuldabréf í íslenskum krónum fyrir hundrað og fimmtán milljarða króna en það er um 10% af landsframleiðslu. Meðallengd skuldabréfanna er 18 mánuðir.

Á seinni hluta næsta árs koma um 40 milljarðar eða um 4% af vergri landsframleiðslu til greiðslu. Á sama hátt og útgáfan hefur styrkt íslensku krónuna á þessu ári getur það veikt hana á næsta ári.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir að það liggji nú þegar ljóst fyrir hvenær gjaldadagi bréfanna er á næsta ári. Það má því gera ráð fyrir að þeir sem séu að versla með krónur á gjaldeyrismarkaði taki strax tillit til þessa og verðleggi krónuna í takt við veikingaráhrif.

Skuldabréfaútgáfan hefur mikil áhrif á gengi krónunnar. Ef útgáfan heldur áfram mun krónan haldast sterk en ef hún minnkar þá gefur krónan eftir. Edda segir að þetta megi sjá af því að nú þegar nokkuð hlé hafi verið á útgáfunni þá hafi krónan veikst lítillega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×