Sport

Boston - Seattle í beinni

Paul Pierce og félagar í Boston taka á móti Seattle Supersonics í beinni útsendingu á NBA TV í kvöld
Paul Pierce og félagar í Boston taka á móti Seattle Supersonics í beinni útsendingu á NBA TV í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Leikur Boston Celtics og Seattle Supersonics verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV í nótt klukkan hálf eitt. Viðureign þessara liða verður athyglisverð í ljósi þess að bæði lið hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er og vilja eflaust hrista af sér slenið og sigra í kvöld.

Bæði þessi lið léku útileik í gærkvöldi og töpuðu bæði leikjum sínum. Stórskyttan Ray Allen fer jafnan fyrir liði Seattle, en hann skorar að meðaltali um 23 stig í leik það sem af er, en Rashard Lewis var reyndar stigahæstur í tapi liðsins fyrir New Jersey í gær og setti 29 stig.

Paul Pierce skorar að meðaltali um 26 stig í leik fyrir Boston, en hann nýtur góðrar aðstoðar Ricky Davis, sem í gærkvöldi skoraði 31 stig gegn funheitu liði Detroit.

Boston hefur unnið þrjá leiki og tapað fjórum á leiktíðinni, en mörg af þessum töpum hafa verið í leikjum þar sem úrslitin hafa ráðist í framlengingu eða með skotum á síðustu sekúndunum.

Seattle hefur unnið tvo leiki og tapað fimm, þar af hefur liðið tapað fjórum af fimm leikjum sínum á útivelli og nokkrum þeirra mjög stórt. Nokkur ólga hefur verið í herbúðum Seattle undanfarið og ljóst að nýr þjálfari liðsins, Bob Weiss, á erfitt starf fyrir höndum með liðið sem kom mjög á óvart í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×