Innlent

Nær fjórðungur fyrrum ráðherrar

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið. MYND/GVA

Sex fyrrum ráðherrar hafa verið skipaðir sendiherrar frá árinu 1995. Meirihluti sendiherra á þessu tímabili kemur þó úr störfum innan utanríkisþjónustunnar, eða fimmtán af 27 sendiherrum.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði utanríkisráðherra út í fyrri störf sendiherra sem skipaðir hefðu verið frá árinu 1995. Alls hafa 27 einstaklingar verið skipaðir sendiherrar á þessum tíma. Tólf þeirra koma úr störfum utan utanríkisþjónustunnar. Af þeim eru sex fyrrum ráðherrar, Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Sighvatur Björgvinsson, Svavar Gestsson, Tómas Ingi Olrich og Þorsteinn Pálsson.

Þrír starfsmenn forsætisráðuneytisins í ráðherratíð Davíðs Oddssonar hafa verið skipaðir sendiherrar, þeir Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri, Albert Jónsson, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum, og Júlíus Hafstein framkvæmdastjóri heimastjórnarafmælisins. Þá hafa fimmtán starfsmenn utanríkisþjónustunnar verið skipaðir sendiherrar, einn prófessor við Háskóla Íslands, útvarpsstjóri og fyrrum framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu.

Sigurjón Þórðarson segist ekki fá séð af þessum skipunum að hagsmuna þjóðarinnar hafi verið gætt. Þarna sé mikið um Sjálfstæðismenn, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Markús Örn Antonsson séu meðal þeirra sem hafi verið skipuð hvað nýlegast. Hann segir margar skipanirnar að undanförnu helst gefa til kynna að stjórnarflokkarnir sjái að það fjari undan þeim og því kappkosti þeir að koma sínu fólki á ríkisspenann. Þarna sé klíka sem blóðmjólki allt út úr kerfinu sem það geti og slíkt sé þjóðfélagsmein.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×