Sport

Benedikt setti heimsmet

Benedikt Magnússon er heimsmethafi í réttstöðulyftu
Benedikt Magnússon er heimsmethafi í réttstöðulyftu Mynd/Vilhelm

Kraftlyftingamaðurinn Benedikt Magnússon stóð við stóru orðin þegar hann keppti á Evrópumótinu í Finnlandi í dag og setti glæsilegt heimsmet í réttstöðulyftu, með því að lyfta 440 kílóum. Hann átti svo góða tilraun við 455, en hársbreidd vantaði uppá að sú lyfta færi upp.

Benedikt hafði gefið það út áður en hann hélt til Finnlands að megintilgangur fararinnar væri að koma Íslandi á kortið með því að setja heimsmet í réttstöðulyftu og það gerði hann svo sannarlega í dag með þessum glæsilega árangri. Eldra metið átti Bretinn Andy Bolton, en það var um 425 kíló.

Jón Gunnarsson, sem sjálfur varð heimsmeistari öldunga í kraftlyftingum á dögunum, var á staðnum og sagði að stemmingin hefði verið ólýsanleg. "Þetta var rosalegt hjá honum Benna. Hann tók heimsmetið í fyrstu tilraun eins og hann hafði lofað og svo tók hann 440 og átti góða tilraun við 455. Andy Bolton var alveg að fara á taugum hérna í gær af áhyggjum og stressi fyrir keppnina," sagði Jón og hló, en ljóst er að Benedikt er búinn að stimpla sig rækilega inn sem besti réttstöðulyftari heimsins í dag, aðeins rúmlega tvítugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×