Innlent

Lúðvík heldur 1. sætinu

Það voru ekki bara sjálfstæðismenn í Reykjavík sem kusu menn á lista fyrir sveitarstjórnarkosningar í dag.

Samfylkingarmenn í Hafnarfirði og á Akureyri gengu einnig að kjörborðinu.

Um 2000 manns eru á kjörskrá Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Öruggt er talið að Lúðvík Geirsson bæjarstjóri muni áfram halda fyrsta sætinu og hann tók glaðbeittur á móti gestum og gangandi á kjörstað við Strandgötuna í dag. Kjósendur áttu þess kost að velja á milli 21 frambjóðanda, sjö konur og fjórtán karla. Þegar upp er staðið er þess þó krafist að á listanum séu kynjahlutföll jöfn eða ekki færri en fjörutíu prósent af hvoru kyni.

Kjörfundi lauk klukkan sex og búist er við að talningu ljúki um klukkan ellefu í kvöld. Úrslitin verða svo kynnt á Fjörukránni, ef allt gengur eftir áætlun.

Um fyrsta sætið á lista Samfylkingarinnar á Akureyri tókust nafnarnir Hermann Óskarsson, formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og Hermann Jón Tómasson, varabæjarfulltrúi.

Eini núverandi fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, Oktavía Jónsdóttir, býður sig ekki fram. Eingöngu er kosið um fjögur efstu sæti listans og samkvæmt prófkjörsreglum skulu þau skipuð 2 konum og 2 körlum.

Tólf eru í framboði, fimm konur og sjö karlar. Um 800 manns eru á kjörskrá nyrðra og er talna þaðan að vænta um klukkan níu í kvöld.



 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×