Innlent

S-hópurinn með vænlegasta tilboðið

Helstu rökin fyrir vali HSBC á S-hópnum sem álitlegasta fjárfestinum vegna Búnaðarbankans var aðkoma Societe Generale eða álíka alþjóðlegs fjárfestingabanka að fjárfestahópnum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Fréttablaðið hefur fengið afhenta í kjölfar ákvörðunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál. HSBC er alþjóðlegur fjárfestingabanki sem veitti framkvæmdanefnd um einkavæðingu ráðgjöf vegna einkavæðingar ríkisbankanna 2002. Skýrslan hefur að geyma mat HSBC á fjárfestunum tveimur sem voru valdir úr hópi áhugasamra um kaup á Búnaðarbankanum, S-hópnum og Kaldbaki. Þar kemur einnig fram að bankastjórn Búnaðarbankans hafði áhyggjur af pólitískum tengslum S-hópsins og varaði við hugsanlegum afleiðingum þess fyrir bankann. Bankastjórnin óttaðist að pólitísk tengsl S-hópsins gæti fælt frá viðskiptavini bankans og dregið úr nýjum viðskiptum. S-hópurinn ætlaði sér í samstarf með VÍS og sá fyrir sér samvinnu eða samruna við aðrar fjármálastofnanir, þótt það væri ekki tilgreint nánar. HSBC notaði reiknilíkan til að leggja mat á fjóra þætti í tilboðum bjóðendanna: Fjárhagsstaða fjárfestis, framtíðaráform um rekstur bankans, hugmyndir um staðgreiðsluverð, þekking og -reynsla fjárfestis á fjármálamarkaði. Í reiknilíkani HSBC vegna sölu Landsbankans var einn þáttur hafður til viðbótar, skilyrði af hálfu kaupenda. Í reiknilíkani HSBC vegna sölu Búnaðarbankans var tilboð S-hópsins metið á bilinu 66 til 74. Ástæðan fyrir bilinu var óvissan um hvort franski alþjóðafjárfestingabankinn Societe Generale eða viðlíka alþjóðlegur fjárfestir tæki þátt í fjárfestingunni. Tilboð Kaldbaks var metið á 64 og því hefði tilboð S-hópsins verið metið sem vænlegra en Kaldbaks, með eða án alþjóðlegs fjárfestis.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×