Innlent

Látið verði af tortryggni

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis sjái ekki forsendu til þess að kanna hæfi hans við sölu ríkisins á Búnaðarbankanum, sé orðið tímabært að stjórnarandstaðan láti af tortryggni sinni í garð hans og að þau atriði sem umboðsmaður spyrji um séu nú þegar til athugunar í ráðuneytinu. Halldór segist fagna þeirri niðurstöðu umboðsmanns Alþingis að það séu engar forsendur til þess að hann hafi frumkvæði um athugun á hæfi hans til sölu á Búnaðarbankanum sem þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar hafi farið fram á. Niðurstaðan komi honum ekki á óvart og ljóst sé að álit Ríkisendurskoðunar standi óhaggað frá því í vor um það að hann ekki verið vanhæfur til að fjalla um þessi mál á vettvangi ráðherranefndar um einkavæðingu. Halldór segist vonast til þess að þetta verði til þess að stjórnarandstaðan grafi þá stríðsöxi sem hún hafi haft uppi í málinu og beini kröftunum að því að huga að málum til framtíðar. Aðspurður hvort hann teldi ástæðu til að skýra betur eða setja ný lög um þessa hluti segir Halldór að alltaf megi gera betur í öllum málum. Farið hafi verið yfir málin að undanförnu í forsætisráðuneytinu, en núverandi reglur séu að verða 10 ára gamlar. Það sé ljóst að allir séu sammála um að einkavæðing Símans hafi tekist vel og þar hafi menn lært af því hvernig málin gengu í frumbernsku. Hann hafi ekki orðið var við neina gagnrýni í sambandi við einkavæðingu Símans en verið sé að fara yfir málin og umboðsmanni Alþingis verði svarað tiltölulega fljótt. Hann telji rétt að umboðsmaður fái svörin fyrst og því vilji hann ekki tjá sig um þau í fjölmiðlum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×