Innlent

Hafi bréf yfir kröfur Jónínu

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpskona segist hafa undir höndum bréf frá Jónínu Benediktsdóttur til Jóhannesar Jónssonar, þar sem Jónína útlistar hvað hún vilji fá frá Jóhannesi eftir að þau slitu samvistum. Arnþrúður segir það ekki hafa komið sér á óvart þegar Fréttablaðið upplýsti um samskipti Jónínu, Jóns Geralds Sullenberger og Styrmis Gunnarssonar. Hún segir einnig ljóst að málið teygi anga sína til áhrifamanna í þjóðfélaginu og segir málið allt birtingarmynd "yfirstéttarundirheima". Arnþrúður segir Jónínu hafa persónulegar ástæður fyrir því að koma Baugsákærunum af stað. Hún hafi undir höndum tölvupóst frá Jónínu til Jóhannesar þar sem hún fari fram á 70 milljónir króna og hvítan Audi-jeppa. Arnþrúður segist hafa átt bréfið í tvö ár og segir að hver maður geti séð að óánægja Jónínu með þessi málalok birtist núna. Það sé nokkuð ljóst að hún hafi ekki fengið neitt frá Baugsfeðgum sem hún hafi ætlast til. Arnþrúður vill ekki gefa það upp hvernig bréfið komst í hennar hendur og segir það ekki koma málinu við. Hún kveðst fullviss um að ekki séu enn öll kurl komin til grafar í þessum óvænta anga Baugsmálsins. Hún þvertekur hins vegar fyrir það að hún sé heimildamaður Fréttablaðsins. Ekki náðist í Jónínu Benediktsdóttur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×