Erlent

Londonárás: Æfðu aðgerðirnar

Mennirnir sem frömdu hryðjuverkin í London sjöunda júlí æfðu aðgerðirnar í neðanjarðarlestum rétt rúmri viku fyrir árásirnar. Breska lögreglan telur mögulegt að þær upplýsingar varpi ljósi á hver var höfuðpaurinn á bak við árásirnar sem kostuðu fimmtíu og tvo lífið. Á myndbandi sem breska lögreglan gerði opinbert í dag sjást þrír árásarmannanna ganga inn í Kings Kross og Luton-lestarstöðvarnar þann tuttugasta og áttunda júní, eða aðeins tíu dögum fyrir árásirnar. Eftir ítarlega rannsókn á hryðjuverkunum, þar sem lögreglan hefur meðal annars yfirheyrt þrjú þúsund vitni, er talið öruggt að þennan dag hafi árásarmennirnir farið yfirlitsferð inn í lestarstöðvarnar og farið yfir það hvernig árásirnar yrðu framkvæmdar. Mennirnir voru þrjá klukkutíma í London þennan dag og það hvað gerðist á þessum klukkutímum gæti skipt sköpum fyrir rannsókn málsins að sögn Peters Clarke, yfirmanns hryðjuverkadeildar lögreglunnar, t.d. hvort mennirnir hafi hitt einhvern og hvert þeir hafi farið.  Lögreglan leitar nú logandi ljósi að öllum nánari upplýsingum. Nær öruggt er talið að árásarmennirnir hafi verið í sambandi við fleiri aðila, sem jafnvel hafi stjórnað árásunum. Vonast er til að frekari vitnaleiðslur og athuganir á öryggismyndum varpi ljósi á hverjir voru í slagtogi með árásarmönnunum fjórum og kannski ekki síst hvort uppi hafi verið áform um frekari árásir á London eða aðrar borgir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×