Sport

Frjálsíþróttamenn ársins

Í gær tilkynnti alþjóða frjálsíþróttasambandið um val sitt á frjálsíþróttamönnum ársins. Það voru langhlauparinn Kenenisa Bekele og stangastökkvarinn Yelena Isinbayeva sem urðu fyrir valinu í karla- og kvennaflokki og þarf það ekki að koma á óvart í ljósi góðrar frammistöðu heimsmetshafanna á árinu. Eþíópíumaðurinn Bekele varði heimsmeistaratitil sinn í 10.000 metra hlaupi í Helsinki og bætti heimsmet sitt um þrjár sekúndur. Rússneska stúlkan Yelene Isinbayeva hefur borið höfuð og herðar yfir aðra keppendur í stangarstökkinu og varð í sumar fyrsta konan til að stökkva yfir fimm metra. Hún hefur sett hvert heimsmetið á fætur öðru og er vel að þessum verðlaunum komin. Þá voru veitt sérstök verðlaun fyrir sérstök afrek á árinu og í karlaflokki hlaut spretthlauparinn Justin Gatlin verðlaun fyrir að vinna bæði 100 og 200 metra hlaupið í Helsinki og í kvennaflokki var Tirunesh Dibaba heiðruð fyrir tvöfaldan sigur sinn á sama móti í 5000 og 10000 metra hlaupi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×