Sport

Síðasta umferð 2. deildar í dag

Síðasta umferð 2. deildar karla í knattspyrnu fer fram í dag. Leiknir og Stjarnan hafa þegar tryggt sér sæti í 1. deild og Leiftur/Dalvík er fallið úr deildinni. Tindastóll fylgir líklega grönnum sínum niður um deild en í gær fengu ÍR-ingar tvö stig eftir að dómstóll KSÍ dæmdi ÍR-ingum 3-0 sigur í leik gegn Leiftri/Dalvík en leiknum lauk með jafntefli. Þjálfari Leifturs/Dalvíkur var í leikbanni í umræddum leik en í niðurstöðu dóms KSÍ kemur fram að þjálfarinn hafi rætt við aðstoðarþjálfara sinn þegar leikmenn og þjálfarar gengu til búningsherbergja í hálfleik. Fyrir lokaumferðina er ÍR með 20 stig en Tindastóll 16. Tindastóll, sem mætir Leiftri/Dalvík í dag, getur náð 19 stigum eins og Huginn og Afturelding en markatala liðsins er það slæm að útilokað er að liðið bjargi sér frá falli. Í dag keppa Reynir Sandgerði og Sindri Hornafirði um sigurinn í 3. deild. Leikurinn verður í Grindavík klukkan 14. Á sama tíma eigast við FH og Þór/KA/KS um sæti í Landsbankadeild kvenna. Þetta er fyrri leikur liðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×