Innlent

Alfreð hræðist ekki Önnu

Anna Kristinsdóttir stefnir að fyrsta sætinu á lista framsóknarmanna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar. Alfreð Þorsteinsson, núverandi oddviti framsóknarmanna, segir Önnu þegar hafa reynt að sigra sig einu sinni og henni sé guðvelkomið að reyna það aftur. Það hefur legið í loftinu um nokkurt skeið að Alfreð fengi mótframboð til fyrsta sætisins á lista framsóknarmanna í Reykjavík. Í dag var öllum vafa létt þegar Anna tilkynnti um framboð sitt. Hún segir Alfreð Þorsteinsson hafa tekið því vel þegar hann frétti af mótframboðinu. Spurð hvort þetta þýði að það sé klofningur innan flokksins segist Anna ekki líta svo á. Í Framsóknarflokknum sé fleiri en einn sem sækist eftir efstu sætum á listum flokkanna, rétt eins og í hinum flokkunum. Hún kveðst ekki endilega vera að sækjast eftir fyrsta sætinu vegna þess að hún sjái fyrir sér að framsókn nái ekki nema einum manni inn. Aðspurð segist Anna ekki hafa tekið ákvörðun um framtíð sína ef hún nái ekki fyrsta sætinu. Í samtali við fréttastofu í dag sagði Alfreð að ölum væri frjálst að bjóða sig fram og að sér litist alls ekki illa á að fá mótframboð. Anna hefði áður reynt að ná af sér fyrsta sætinu en ekki tekist. Henni væri guðvelkomið að reyna það aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×